Dominik Szoboszlai, leikmaður Red Bull Salzburg og Ungverjalands, er einn eftirsóttasti ungi leikmaður Evrópu og stærstu félög álfunnar hafa verið að fylgjast með kappanum. Ætli félög sér að næla í kappann í janúar þurfa þau hins vegar að setja fram tilboð fyrir 31. desember. Þetta herma heimildir David Ornstein hjá The Athletic.
Szoboszlai er með klásúlu í samningi sínum sem kveður á um að hann megi fara frá Salzburg fyrir 22,6 milljónir punda, það þykir lágt verð fyrir leikmann með hans gæði.
Það sem flækir möguleg kaup á leikmanninum er sú staðreynd að greiða þarf alla upphæðina í einni greiðslu og greiðslan verður að vera innt af hendi innan tveggja vikna frá því að tilboðið er samþykkt. Það er kveðið á um það í samningi leikmannsins.
Heimildir David Ornstein, herma einnig að leikmaðurinn þurfi að tilkynna forráðamönnum Red Bull Salzburg það fyrir 15. desember, vilji hann fara frá félaginu í janúar. Annað ákvæði í samningi Szoboszlai kveður á um það.
Szoboszlai er miðjumaður, hann hefur leikið 79 leiki fyrir Red Bull Salzburg og hefur skorað 25 mörk í þeim leikjum og gefið 33 stoðsendingar. Þá á hann að baki 12 leiki fyrir landslið Ungverjalands, hann hefur skorað 3 mörk í þeim leikjum, þar á meðal sigurmark Ungverja gegn Íslandi í úrslitaleik um laust sæti á EM sem fram fer næsta sumar.