Þurfti að slaka á og fór á fullt í hjólreiðar

0
66

Líf Þorsteins hefur alla tíð snúist um sjóinn og fiskveiðar. Á fertugsaldri uppgötvaði hann svo hjólreiðar. mbl.is/Alfons

Fyrir tæplega áratug síðan lenti Þorsteinn Bárðarson á vegg. Hann hafði frá unga aldri stundað sjóinn af kappi og byggt upp eigin útgerð með öllu því sem tilheyrði og var kominn með fjölskyldu. Vinnudagarnir voru margir og langir. Hann fór að finna fyrir því að vera orðinn heilsulítill, þá rétt rúmlega 35 ára gamall. Eftir að hafa gengið á milli lækna var niðurstaðan sú að hann var þjakaður af streitu og álagi og að lífsstíllinn væri orsök heilsubrestsins. Þarna var komið að ákveðnum tímamótum og Þorsteinn hefur heldur betur breytt um stefnu síðan. Hann er í dag einn af öflugustu götuhjólurum landsins og varð meðal annars bikarmeistari í fyrra.

Lífið snerist um sjóinn Þorsteinn er fæddur og uppalinn á Rifi, sem nú er hluti af Snæfellsbæ. „Líf mitt hefur algjörlega snúist um sjó síðan ég var ellefu ára gamall og ég byrjaði að fara á sjó með pabba mínum,“ segir hann. Sjómennskan hefur fylgt honum alla tíð síðan, en árin 1996-98 fór hann í Stýrimannaskólann og kláraði fiskimanninn. Rétt áður en hann kláraði námið keypti hann svo bát og 20 tonna kvóta og var þar með kominn í útgerð.

En það dugðu engin vettlingatök í þessu fremur en öðru sem Þorsteinn hefur hellt sér út í. „Segja má að ég hafi verið keppnismaður þar áður en hjólreiðarnar komu til. Lífið snerist um að vera aflahæstur í smábátakerfinu og keppa við bátana fyrir vestan,“ segir hann og skellir upp úr. „Það er ótrúleg samkeppni þar og menn fylgjast vel hver með öðrum.“

Fór ekki auðveldu leiðina En svo gerðist það um 35 ára aldurinn að heilsunni fór að hraka eins og fyrr segir. „Ég opnaði augun smátt og smátt fyrir þessu og fór að viðurkenna að ég þyrfti að fara að hægja á mér og ég tók þá ákvörðun að slaka aðeins á á sjónum, en líka að breyta um lífsstíl.“ Á þessum tíma var félagi hans í Snæfellsbæ eini maðurinn í plássinu sem var eitthvað í hjólreiðum og á koltrefjakeppnishjóli. „Fólk hugsaði með sér að hann væri snarruglaður, en mér fannst þetta áhugavert og fór á eftir honum,“ segir Þorsteinn og bætir við „Auðvitað valdi ég erfiðasta sportið sem hægt var að velja.“

Fyrst um sinn fór Þorsteinn þó ekki alla leið á kaf í hjólreiðarnar heldur keypti sér nokkurs konar götu-samgönguhjól í stað keppnishjóls. „En ég féll strax fyrir þessu, bara ekki í sama mæli og í dag.“ Þetta fyrsta ár hjólaði hann tvö þúsund kílómetra og var viss um að hann væri heldur betur að komast í toppform. Þetta ár, 2014, tóku hann og vinur hans þátt í Jökulmílunni og fóru hálfa Jökulmílu. „Það var engin markviss þjálfun en við héldum að við vissum hvað við værum að gera. Svo var þó ekki.“

Sama ár tók hann einnig þátt í tímatöku á Krýsuvíkurvegi, í svokallaðri Prolouge-keppni. Segir Þorsteinn að það hafi algjörlega opnað augu hans fyrir íþróttinni. „Ég hélt þá að enginn gæti verið að hjóla svona mikið eins og við og að ég væri í þvílíku formi og ætti góðan séns miðað við alla æfinguna.“ Hann ætlaði því að fara af fullu afli þessa nokkru kílómetra sem keppnin var. „Ég hélt að það væri ekki hægt að kreista út meira afl, en fer svo fljótlega að heyra í einhverju fyrir aftan mig,“ segir Þorsteinn og líkir svo eftir hljóði í plötugjörðum fyrir blaðamann. „Ég trúði ekki að menn væru að ná mér, en jú jú, svo var bara straujað fram úr mér.“

Gaman er að fara utan þegar veður og færð koma í veg fyrir útiæfingar heima Ljósmynd/Aðsend

„Þetta ætla ég að gera“ Hinum megin við marklínuna kom sá sem hafði farið fram úr Þorsteini til hans og sagði honum að vera ekki harður við sjálfan sig, hann væri sjálfur búinn að æfa svo lengi. „Ég horfði á hann og maðurinn var svona 15 árum eldri en ég og þá var ég samt 38 ára.“ Segir Þorsteinn að hann hafi samt ekki tekið neikvætt í þetta heldur hugsað að hann gæti sjálfur orðið svona góður þrátt fyrir að byrja seint í íþróttinni. „Ég hugsaði: Þetta ætla ég að gera. Ég er bara rétt að byrja og þetta breytti miklu fyrir mig.“

Árið eftir hóuðu þeir félagar svo í átta aðra úr plássinu og skráðu sig í Wow cyclothon. Segir hann þetta hafa vakið talsverða athygli á Rifi og sumir hafi keypt sér hjól, en það hafi allt gengið til baka og vinurinn sé núna fluttur í Hafnarfjörð. Í dag fikti einhverjir lítillega við hjólreiðar en enginn sé á kafi eins og hann. Þorsteinn hélt áfram að hjóla og taka þátt í nokkrum keppnum hér og þar. En í kringum 2018 ákvað hann svo að hann vildi taka hjólreiðarnar föstum tökum og æfa agað og mikið. „Ég hafði áttað mig á því að tvö þúsund km væru ekkert rosalega mikið.“ Fór hann að lesa sér til um hjólaþjálfun. Hann horfði á fjölda upplýsingamyndskeiða á YouTube og víðar til að kynna sér hvað fólk væri að leggja áherslu á í þjálfun. Jafnfram fór hann taka saman hvernig best væri að byggja upp æfingaáætlun í kringum sjómennskulífsstílinn.

Kannski er ágætt að taka það fram hér að þó Þorsteinn hafi sjálfur lýst því þannig að hann hafi ákveðið að taka því rólegar en áður, þá þýðir það hjá honum að fara yfir tíu mánaða tímabil aðra hverja viku daglega í 20 klst róðra og vinna svo vikuna á móti í öðru, tengdu útgerðinni og rekstri hennar. Einhvers staðar yrði það jafnvel flokkað sem vel ríflega 100% vinna.

Með þetta í farteskinu var ætlunin að verja talsverðum tíma í stífar æfingar þær vikur sem hann var í landi, en yfir sjóvikuna ætlaði hann að reyna að troða inn 2-3 æfingum í viku meðan þeir voru í landi. Það var aðeins um fjögurra tíma gluggi. „Stuttar og hnitmiðaðar lotuæfingar,“ segir Þorsteinn um þann tímaglugga.

Flökkusagan um sjóarann Í róðrunum er sofið um borð og segir Þorsteinn í gamansömum tón að ef pláss væri í bátnum myndi hann æfa þar. Þetta vekur upp spurningar hjá blaðamanni um langlífa flökkusögu um „sjóarann síkáta“ á þá leið að hann hafi stundað æfingar um borð í bátnum. Þorsteinn hlær við spurningunni og hefur greinilega heyrt hana áður en neitar alveg að hafa æft á sjónum.

Segir hann tilefni sögunnar líklega það að stundum flytji hann bátinn á milli landshluta, m.a. oft á haustin á Skagaströnd. Í eitt skiptið hafi hann tekið hjólið og búnaðinn með um borð og siglt af stað og tekið myndir og sett á samfélagsmiðla. Segir hann einhverja hafa rekið upp stór augu og talið að hann væri að æfa þá. Hins vegar fékk hann aðstöðu í gamalli síldarverksmiðju á Skagaströnd, sem nú á reyndar að breyta í hótel, og kom þar upp aðstöðu til að æfa inni meðan hann var fjarri heimahögunum.

Þorsteinn og liðsfélagar hans í Cube-liðinu komu sterkir inn á síðasta ári og tók Þorsteinn bikarmeistaratitilinn. Þeir ætla sér aftur að mæta öflugir til leiks á þessu ári. Ljósmynd/Aðsend

Rifnir liðþófar og öxlin fór Þorsteinn segist hafa náð góðum tökum á að sníða æfingar í kringum þennan lífsstíl sinn, en svo þegar hann var farinn að auka álagið nokkuð fóru að koma í ljós afleiðingar aldurs og fyrri starfa. Þannig rifnaði liðþófi í öðru hnénu og svo hinu. Þá fór öxlin líka. „Ég fór þarna í viðgerð og er stoltur af mér að hafa ekki gefist upp. Þetta reyndi mikið á andlegu hliðina þar sem ég hafði byggt mig upp og var kominn í gott form þegar liðþófinn rifnaði,“ segir hann. Tveimur mánuðum eftir fyrri aðgerðina fór seinni liðþófinn, en Þorsteinn segir áhugann og í raun hjóladelluna hafa haldið sér gangandi í gegnum þetta ferli.

Árið 2019 var hann að stórum hluta meiddur, en í dag segist hann vera orðinn góður, þótt það séu alltaf einhver smámál sem komi upp og hann tengir við aldurinn. Hann komst hins vegar aftur á fullt og gat farið að undirbúa komandi keppnisár.

Árið 2020 lenti Þorsteinn í fyrsta sæti í flokki 40-50 ára í Gangnamótinu fyrir norðan og þá hafði hann einnig mætt á Gullhringinn og fleiri almenningsmót til að sækja sér reynslu að hjóla í hóp. Þar fór hann meðal annars hring með Elite-hópnum og segir hann það hafa verið ágætt spark í rassinn, en á sama tíma sá hann að hægt væri að hanga í hópnum.

Árið sem hann sprakk út Árið 2021 er svo árið sem segja má að Þorsteinn hafi fyrst sprungið út, en þá tók hann þrjú af fjórum bikarmótum ársins í flokki 40-50 ára. Var þetta fyrsta keppnisárið þar sem hann hafði náð að æfa heilan vetur án uppákoma. Þann vetur hafi hann séð virkilegar breytingar á sér og að þróunin hafi verið hröð. Þetta var líka fyrsta árið þar sem hann braut 10 þúsund kílómetra múrinn. „Ég setti mér það markmið að verða bikarmeistari í masters það ár og það náðist.“ Á þessum tímapunkti hafi hann hugsað að ekkert væri eftir nema að skella sér upp í Elite-hópinn, en að aldurinn hafi samt aðeins þvælst fyrir sér, en þarna var Þorsteinn orðinn 46 ára.

Þorsteinn náði hins vegar að sigra Gullhringinn á Selfossi þetta ár í Elite-flokki og segir hann að í kjölfarið hafi Thomas Skov, hjólreiðamaður í Tindi, komið til sín og sagt honum að nú væri engin afsökun lengur að færa sig ekki upp.

Árið 2022 var skrefið tekið, en Þorsteinn keppir með Cube-liðinu og strax í fyrstu keppni á Reykjanesinu var komið að því að setja upp keppnisáætlun. Hafði liðsstjórinn, Bjarni Garðar Nicolaisson, gefið honum þau fyrirmæli að gera árás og reyna að stinga af. „Þarna var ég farinn að keppa fyrir lið og tók því alvarlega og framfylgdi bara skipunum,“ segir Þorsteinn. Hann hafði reyndar sjálfur talið galið að senda sig einan í árás.

Hann náði að mynda bil, en allt í einu sá Þorsteinn að Ingvar Ómarsson, margfaldur meistari í hjólreiðum hér á landi, hafði brúað bilið og var kominn til hans. Segist hann þá hafa vitað að þeir gætu allavega unnið saman og náðu að breikka bilið umtalsvert. Þorsteinn segist þó hafa samið við Ingvar um að ef þeir ættu að vinna saman þá þyrfti Ingvar að lofa sér því að þeir myndu útkljá keppnina í endaspretti en ekki að hann yrði skilinn eftir þegar 10 km væru eftir. Það varð úr, en Ingvar tók hann í lokaspretti. Niðurstaðan hins vegar annað sætið í fyrstu keppninni og Þorsteinn hæstánægður.

Árásin niður fjallið Næsta keppni var á Suðurstrandarveginum og þar stóð til að Þorsteinn myndi gera árás niður Festarfjallið. Segist hann fyrst um sinn hafa verið óöruggur um að komast í fyrsta lagi upp fjallið með öllum hópnum, en það hafi tekist og niðurferðin hafi reynst honum auðveldari en öðrum þar sem hann hafi nokkur kíló á alla í hópnum. Planið klikkaði hins vegar að því leyti að allir hans liðsfélagar höfðu misst af lestinni. Hann hélt sér samt í fyrsta hóp og var orðinn einn í þriggja manna hópi á Krýsuvíkurvegi. Þá urðu hann og Hafsteinn Geir Ægisson fyrir því að fá á sig hliðarhviðu þannig að hjólin þeirra skullu saman og skemmdust gírar á hjólinu hans Þorsteins. Hann hélt þó aftur af stað og náði að lokum þriðja sæti eftir töluvert basl.

Fjölskyldan beið í markinu Þriðja keppnin var Jökulmílan. Loksins mættur í Elite-flokki á heimaslóð. Cube mætti með sex manna lið og stýrði hraðanum til að byrja með. Á sunnanverðu nesinu fóru menn svo að gera árásir og í einni tókst að minnka hópinn í um 10 manna hóp og uppi á Vatnaleið voru þeir orðnir fimm. Þorsteinn þekkir þetta svæði auðvitað eins og lófann á sér. Jafnframt vissi hann að styrkleikar hans liggja ekki í öflugasta endasprettinum. Því ákvað hann þegar um 2 km voru eftir að gera árás niður aflíðandi brekku. Hafði hann þá passað að vera aftastur í hópnum efst í brekkunni, sigið aðeins aftur úr en svo gefið allt í botn og þeyttist þannig fram úr fjórmenningunum og náði strax að opna gott bil sem hann hélt yfir marklínuna. „Mamma og pabbi, konan og börnin voru þarna í markinu, þetta var ótrúlegt. Hápunkturinn,“ segir Þorsteinn þegar hann rifjar þetta upp.

„Þetta var algjörlega geggjað, allt sem maður hafði lagt á sig var þarna þess virði. Það var rosalega stórt fyrir mig að ná þessu eftir svona langa keppni. Maður er svo andlega bugaður og þú ert búinn að flysja niður andlegu múrana. Allar brynjurnar flettast af, smátt og smátt. Þú átt rosalega erfitt með tilfinningar þegar þú ert kominn á þennan stað og þær verða svo sterkar,“ segir Þorsteinn þegar hann lýsir tilfinningunni nánar.

Ánægður eftir sigur í Classic-keppninni á Þingvöllum í fyrra. Ljósmynd/Aðsend

Við tók svo Classic-keppnin á Þingvöllum þar sem Þorsteini tókst einnig að sigra, en upphaflega hafði Guðmundur Sveinsson, einn liðsfélaga hans, átt að vera sá Cube-maður sem átti að berjast um sigur. Sprungið dekk kom hins vegar í veg fyrir það og Þorsteinn náði á tæknilega erfiðum stað að búa til bil á hópinn og brúa yfir í þrjá sem voru á undan. Segir hann að þar hafi æfingin hjálpað, en hann hafði mætt daginn áður og einmitt æft þessa beygju sem hann tók á eins miklum hraða og hann vissi að væri öruggt. Var Þorsteinn þarna kominn með tvo sigra á tímabilinu og endaði sem bikarmeistari. „Það var ótrúlegt að geta þetta á móti öllum þeim sem maður hafði horft upp til árin á undan,“ segir hann.

Einföld uppskrift að árangri Þorsteinn segir lítinn galdur á bak við árangur sinn. Það þurfi einfaldlega aga og leggja fram þá vinnu sem til þarf. „Það er eins og með allt annað í lífinu. Þú þarf að vera með þvílíka ástríðu og vera tilbúinn að leggja á þig þessa rosalegu vinnu. Þessi ástríða var til staðar og keyrði mig áfram til að æfa eins og berserkur.“ Þá segir hann gríðarlega mikilvægt að hafa einhvern sterkan á bak við sig og það hafi hann í eiginkonu sinni. „Hún styður mig alveg 100% í þessu,“ segir hann. „Maður næði aldrei svona árangri nema að konan er með manni í þessu.“

Hann segir að metnaður til bætinga sé drifkrafturinn fyrir sig og að hann sé duglegur að nota tölur og mælingar sem leiðarvísi á þeirri vegferð. „Það er þó ekki alltaf aðalatriðið,“ segir hann. „Ég er ekki bestur í tölunum, en það þarf líka að hafa kjark og skynsemi og að lesa leikinn, þetta er svo mikil taktík.“

Að lokum er rétt að spyrja Þorstein um áformin í ár. Hann segist hafa æft vel í vetur, svipað og árið áður og að hann verði áfram með strákunum í Cube-liðinu sem allir ætli að mæta ferskir í sumar. Segir hann mikinn hug í mönnum, en enn eigi eftir að teikna nákvæmlega upp markmið. Upphaflega hafi þeir viljað draga til sín einhvern ungan og öflugan og reyna að vinna fyrir hann, en ekkert slíkt hafi gengið upp. „En það er hugur í okkur öllum og ekki síst mér,“ segir Þorsteinn. Hann útilokar ekki að ætla að verja bikartitilinn, en að það hafi ekki verið upphaflegt markmið fyrir sig.

Segir hann að miðað við hvernig keppendur komi undan vetri geti stefnt í eitt öflugasta sumar í langan tíma þar sem a.m.k. þrjú öflug lið takist á. Þá vonar hann að liðataktík spili stærri rullu en oft áður og að íþróttin þróist í auknum mæli í þá átt. Þorsteinn segir að líklega sé hans helsti styrkleiki tímataka og langar keyrslur, en að sér finnist samt stuttir sprettir skemmtilegastir. Segist hann mögulega prófa einhverjar tímatökukeppnir í ár, en það eigi alveg eftir að koma í ljós. Þá sé stefnan sett á bæði Riftið og Grefilinn til að prófa betur mölina. „Á meðan ég get verið með þeim bestu ætla ég að halda áfram, ég á enn eitthvað eftir,“ segir Þorsteinn, en hann varð fyrr í mánuðinum 48 ára.

Viðtalið birt­ist fyrst í Hjóla­blaðinu sem fylgdi Morg­un­blaðinu á föstu­dag­inn. Hægt er að nálg­ast blaðið í heild í viðheng­inu sem fylg­ir frétt­inni.