6.3 C
Grindavik
26. september, 2021

„Þurfti“ að velja 18-20 ára leikmenn?

Skyldulesning

Arnar Þór Viðarsson þjálfari karlalandsliðsins í fótbolta hefur vægast sagt komið illa út í meintum ofbeldismálum „stjarnanna“ okkar í karlaboltanum. Hann hefur kvartað yfir því að fá ekki að velja þá í landliðið sem tengjast meintum brotum, eins og ekkert væri sjálfsagðara, og að auki komið mjög illa út á öllum fjölmiðlafundum: illa máli farinn, óöruggur og yfirleitt svarað spurningum út í hött.

Enda er svo komið að í könnun eftir stórtapið gegn Þýskalandi, spurði fotbolti.net hvort lesendur hefðu trú á Arnari sem landsliðsþjálfara. 2965 manns hafði það ekki eða 68,6% aðspurðra!

Fjölmiðlarnir eiga auðvitað sök á þessu ástandi og eru farnir að spila með þjálfaranum og landsliðinu sem slíku. Tapið slæma gegn Þýskalandi var afsakað með því að Þjóðverjarnir hafi verið svo stórkostlegir, frábærir, svo óhugnanlega gaman að horfa á þá og svo miklu betra en kynslóðaskipt lið okkar.

Þetta var endurtekið hvað eftir annað á RÚV. Þar á bæ og víðar voru menn fljótir að gleyma því að fyrir um fimm árum síðan vann íslenska landsliðið hið „stórkostlega“ landslið Englendinga og komst í átta liða úrslit á EM!

Og hvað með þessi kynslóðaskipti? Voru og eru þau nauðsynleg?

Við eigum leikmenn sem hafa leikið ytra í mörg ár en eru ekki valdir í landsliðið – og ekki hægt að afsaka það með því að þeir liggi undir grun eins og gamla liðið okkar.

Þetta eru menn eins og Viðar Ari Jónsson sem hefur gert sex mörk í tíu leikjum í norsku úrvalsdeildinni, alls átta mörk á leiktíðinni, Aron Elís Þrándarson sem hefur nokkrum sinnum verið valinn í úrvalslið efstu deildarinnar dönsku (hann var valinn í æfingarleikina í USA nú nýlega en fékk lítið sem ekkert að spreyta sig), Stefán Teitur Þórðarson sem leikur reglulega með spútnikliði dönsku úrvalsdeildarinnar (Silkeborg) og jafnvel hinn 23 ára gamli Sveinn Aron Guðjohnsen sem ekki var valinn í landsliðið í þessum leikjum heldur 18 ára gamall bróðir hans sem aldrei hefur spilað í nokkurri úrvalsdeild!! 

Svo má auðvitað áfram lengi telja. Þó skal staldrað við þann mann sem hefur staðið sig hvað best í atvinnumennskunni undanfarin ár, Arnór Ingva Traustason. Með því að velja hann ekki, og bera við aumlegri afsökun, er verið að gera hann tortryggilegan svo fólk fer að halda að hann sé einn af hinum meintu brotamönnum.

Þetta og margt fleira segir okkur að leggja verði öll spil á borðið um hverjir liggi undir grun – og að allir þeir sem hafa verið að þagga það niður verði látnir fara, ekki síst landsliðsþjálfarinn.

Að auki er lítill missir af Arnari Þór Viðarssyni árangurlega séð – og ekki er hann sá röggsami maður sem þarf í brúna eftir þessar uppákomur undanfarið.


Fyrri fréttLoftslagsmál
Næsta fréttGóð grein Ingibjargar
spot_img
spot_img
spot_img

Innlendar Fréttir