7 C
Grindavik
15. apríl, 2021

Þvottavél stolið meðan á þvotti stóð

Skyldulesning

Lögreglumenn að störfum.

Tilkynnt var um þjófnað á þvottavél úr sameign í fjölbýlishúsi í miðbæ Reykjavíkur upp úr klukkan hálfníu í gærkvöldi. Maður hafði sett föt í þvottavél sína í sameiginlegu þvottahúsi en þegar hann kom aftur til að sækja fötin var búið að taka fötin úr þvottavélinni og stela henni.

Laust fyrir klukkan ellefu í gærkvöldi var tilkynnt um líkamsárás í Árbænum. Maður á vettvangi var handtekinn, grunaður um líkamsárás og hótanir. Hann var vistaður í fangageymslu lögreglu. Minni háttar áverkar voru á þeim sem varð fyrir árásinni, að því er kemur fram í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

Rann til í hálku á rafskútu

Rafskútuslys varð í Vesturbænum um sjöleytið í gærkvöldi. Maður á rafskutlu rann í hálku og datt. Sjúkrabíll var sendur á vettvang. Maðurinn kvartaði undan eymslum í höfði og hafði fengið lítill skurð við augabrún.

Maður í annarlegu ástandi var handtekinn í hverfi 108. Hann er grunaður um frelsissviptingu og eignaspjöll. Hann var vistaður fyrir rannsókn máls í fangageymslu lögreglu.

Er lögreglumenn voru að sinna máli í húsi í miðbæ Reykjavíkur upp úr klukkan níu í gærkvöldi fundu þeir mikla fíkniefnalykt koma frá íbúð í húsinu. Rætt var við íbúa íbúðarinnar og hann spurður um fíkniefni. Maðurinn viðurkenndi neyslu/vörslu fíkniefna og afhenti lögreglu ætluð fíkniefni. 

Bifreið var stöðvuð í hverfi 108 um klukkan hálftíu í gærkvöldi. Ökumaðurinn reyndist vera sviptur ökuréttindum og bifreiðin ótryggð. Skráningarnúmer bifreiðarinnar var klippt af.

Önnur bifreið var stöðvuð í sama hverfi um hálfellefuleytið. Ökumaðurinn er grunaður um akstur bifreiðar undir áhrifum fíkniefna, ítrekaðan akstur sviptur ökuréttindum, vörslu fíkniefna og þjófnað. Maðurinn var vistaður í fangageymslu lögreglu.

Tilkynnt var um umferðaróhapp á fjórða tímanum í nótt í Garðabæ. Þar stakk ökumaður af frá vettvangi. Afskipti voru höfð af tjónvaldi skömmu síðar og var hann handtekinn grunaður um akstur bifreiðar undir áhrifum áfengis og fíkniefna.  Hann var vistaður í fangageymslu lögreglu.

Innlendar Fréttir