Þyrla sótti slasaðan mann eftir bíl­slys á Klettshálsi – Vísir

0
39

Þyrla sótti slasaðan mann eftir bíl­slys á Klettshálsi Þyrla Landhelgisgæslunnar sótti mann sem slasaðist í bílslysi á Klettshálsi á sunnanverðum Vestfjörðum í dag. Von var á henni til lendingar við Landspítalann í Fossvogi rétt eftir klukkan 13:00.

Ásgeir Erlendsson, upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslunnar, segir að þyrlan hafi verið í loftinu á leið á æfingu þegar kallið kom. Snarlega var hætt við æfinguna og þyrlunni stefnt á slysstað.

Einn var í bíl sem lenti utan vegar á Klettshálsi, að sögn Davíðs Rúnars Gunnarssonar, slökkviliðsstjóra Vesturbyggðar. Tilkynning barst um slysið á milli klukkan ellefu og hálf tólf. Slökkvibílar frá bæði Reykhólum og Patreksfirði hafi verið sendir á slysstað ásamt lögreglu- og sjúkrabílum. 

Davíð Rúnar hafði ekki upplýsingar um ástand þess slasaða. Aðstæður á Klettshálsi hafi verið ágætar, þurrt og autt.

Ekki náðist strax í lögregluna á Vestfjörðum vegna slyssins.

Fréttin hefur verið uppfærð.