Þýskir loftslagsaðgerðasinnar í sigti lögreglunnar – DV

0
7

Í frétt CNN í morgun kemur fram að lögreglan í Þýskalandi hafi ráðist í húsleitir um allt land sem beinast að meðlimum hóps loftslagsaðgerðasinna sem kallar sig Síðasta kynslóðin ( þ. Letzte Generation).

Alls var leitað í fimmtán fasteignum í sjö sambandslöndum Þýskalands. Það eru ríkislögregla Bæjaralands og saksóknaraembættið í München sem standa fyrir rannsókninni en nutu aðstoðar annarra embætta í landinu við húsleitirnar.

Leitað var í Berlín, Bæjaralandi, Hesse, Hamborg, Magdeburg, Dresden og Schleswig-Holstein.

Saksóknaraembættið í München sagði að rannsókn hefði verið hafin vegna kvartana og kæra frá almenningi allt frá miðju síðasta ári. Alls séu sjö einstaklingar, sem tilheyra Síðustu kynslóðinni, til rannsóknar grunaðir um að stofna og styðja glæpasamtök. Eru einstaklingarnir m.a. grunaðir um að afla fjár á vefsíðu hópsins til að fjármagna það sem embættið kallar glæpi, m.a. skemmdarverk.

Síðasta kynslóðin hefur staðið fyrir ýmsum aðgerðum í Þýskalandi til að minna á loftslagsvánna. Hópurinn hefur m.a. lokað vegum með því að meðlimir lími sig fasta við malbikið og einnig hafa þeir farið inn á listasöfn og límt sig fasta við listaverk.

Einnig er hópur sem kallar sig sama nafni starfandi á Ítalíu ( í. Ultima Generazione). Sá hópur vakti nýlega heimsathygli þegar hann hellti viðarkolum í Trevi gosbrunninn í Róm með þeim afleiðingum að vatnið í honum varð svart.