9.3 C
Grindavik
25. september, 2022

Tilkynnt um 220 nauðganir í fyrra

Skyldulesning

Ríkislögreglustjóri stefnir nú að því að upplýsingar um kynbundið ofbeldi …

Ríkislögreglustjóri stefnir nú að því að upplýsingar um kynbundið ofbeldi verði birtar ársfjórðungslega. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Lögreglunni bárust tilkynningar um 220 nauðganir á árinu 2021 og samsvarar það 37% fjölgun frá árinu áður. Þetta segir í tilkynningu frá ríkislögreglustjóra en ný skýrsla embættisins um kynferðisbrot hefur verið birt þar sem finna má tölfræði frá árinu 2010 fram til ársins 2021.

Þar segir að nær línulegur vöxtur hafi verið í tilkynntum nauðgunum frá árinu 2010 en þá var tilkynnt um 98. Nú sé að meðaltali tilkynnt um 18 nauðganir á mánuði.

Sömu sögu sé að segja um tilkynningar um kynferðislega áreitni og brot gegn kynferðislegri friðhelgi. Alls hafi verið 104 slík brot tilkynnt á síðasta ári en meðtaltalið síðustu þrjú ár á undan hafi verið 57.

Að mati ríkislögreglustjóra má leiða líkur að því að vitundarvakning og samfélagsleg umræða hafi orðið til þess að fleiri brot séu tilkynnt til lögreglu. Þar að auki gæti verið að samkomutakmanir hafi haft áhrif á brot og tilkynningar síðastliðin tvö ár.

Hlutfall barna ekki hærra í fimm ár

Í tilkynningunni segir að hlutfall barna í tilkynntum kynferðisbrotum árið 2021 hafi ekki verið hærra frá árinu 2017, eða 61 prósent. Hlutfallið hækki upp í 70 prósent sé horft til kynferðislegrar áreitni, brota gegn kynferðislegri friðhelgi auk blygðunarsemisbrota.

Þá beinist tæpur þriðjungur nauðgana að börnum.

Þá séu karlar í miklum meirihluta þeirra sem grunaðir eru um kynferðisbrot og langflestir brotaþolar kvenkyns. 

Á síðasta ári voru 420 einstaklingar grunaðir um kynferðisbrot og af þeim voru 94% karlar. Meðalaldur grunaðra karla er 35 ár og grunaðra kvenna er 30 ár. Þegar kemur að brotaþolum voru þeir í 84% tilvika kvenkyns,“ segir í tilkynningunni.

Tilkynntum brotum gegn körlum hafi þó farið fjölgandi frá árinu 2017.

Þegar komi að nauðgunarbrotum hækki hlutfalli karlkyns grunaðra í 99%. Brotaþolar hafi í 93% tilvika verið konur.

Stefnt að bættri skráningu

Ríkislögreglustjóri stefnir nú að því að upplýsingar um kynbundið ofbeldi verði birtar ársfjórðungslega.

„Bæta á skráninguna, þannig að frá og með þessu ári verði mögulegt að taka saman sundurgreindar upplýsingar um alla þolendur í málum sem tilkynnt eru til lögreglu,“ segir í tilkynningunni.

Leitast verði við að veita upplýsingar um tíðni og þróun atvika, ein einnig um sakborninga og brotaþola.

Upplýsingar verði aðgengilegar á vef lögreglunnar hér.

spot_img
spot_img
spot_img

Innlendar Fréttir