Sá fáheyrði atburður átti sér stað er verið var að vinna við troll á trolldekkinu að svívirðileg tilraun til var gerð til að rota Ásbjörn við vinnu sína .  Ekki er vitað hvaða hvatir lágu þar að baki en atvikið er litið alvarlegum augum, ef ekki glóðaraugum! Sá er hélt á sleggjunni þóttist ekkert hafa gert og hélt ótrauður áfram við þá iðju sína að berja á rockhoppernum sem fór eitthvað í taugarnar á honum.

Ásbjörn sagðist aðspurður ekki hafa átt von á þessu en sagðist hér eftir vera viðbúinn hverju sem er. “Kannski er þetta vísbending um að ég eigi að fara í frí, hver veit!” Hann var nokkuð vankaður eftir höggið sem kom á utanvert gagnaugað en hresstist óðar.

“Vænst þótti mér um hvað vaktfélögum mínum var annt um heilsu mína og veittu mér mikla umhyggju en ég skal viðurkenna að mér varð ekki um sel er skipstjórinn kom aðvífandi og kannaði aðstæður og útlit mitt. Hann þuklaði allt andlitið gaumgæfilega og það hvarflaði að mér að túrinn væri að verða fulllangur!”

Ásbjörn er óðum að ná sér eftir þetta enda var honum veitt fullkomin áfallahjálp af vaktfélögum og reyndar skipverjum öllum sem hafa verið óþreyttir við að segja honum aftur og aftur að hann heiti Ási en ekki Valdimar og sé á sjó en ekki að vinna í lakkrísgerð!

2003