2 C
Grindavik
27. nóvember, 2020

Tímamótaráðstefna Geðhjálpar og Geðverndarfélagsins

Skyldulesning

Föstudagur, 20. nóvember 2020

Í gær var haldið málþing á vegum Geðhjálpar og Geðverndarfélags Íslands um málefni barna, sem eiga foreldri, sem á við geðveiki að stríða. Málþingið fór fram – vegna aðstæðna – á netinu og sent út á Facebókarsíðu Geðhjálpar.

Í stuttu máli sagt var hér um að ræða tímamótaráðstefnu um þennan tiltekna þátt geðverndarmála, þ.e. málefni barna, sem eiga geðveikt foreldri. Fyrirlesarar frá Bretlandi, Þýzkalandi og Noregi tóku þátt í málþinginu og töluðu frá sínum heimalöndum, sem nú er að verða algengt.

Það er ljóst að með þessu málþingi er þessi tiltekni þáttur geðverndarmála kominn á dagskrá umræðna um heiðbrigðiskerfið. Fyrirlestrar frá þremur fyrrnefndu löndum sýndu að við erum eftirbátar þeirra þjóða, sem þar komu við sögu, þegar kemur að þessum hópi aðstandenda. Og raunar má kannski segja að Danmörk sé í þeirra hópi í ljósi sjónvarpsþátta, sem Danska sjónvarpið hefur verið að senda út um þetta afmarkaða málefni.

Fyrirlestrarnir vöktu allir athygli, en ekki sízt erindi Sigríðar Gísladóttur, varaformanns Geðhjálpar, sem var bæði áhrifamikið og átakanlegt. Að því loknu sagði Eydís Sveinbjarnardóttir, geðhjúkrunarfræðingur, (sem stjórnaði málþinginu), að erindi Sigríðar hefði verið falleinkunn bæði fyrir heilbrigðiskerfið og skólakerfið.

Í lokin talaði Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, sem upplýsti að í dag mundi hann leggja fyrir ríkisstjórnarfund frumvarp, sem er árangur af starfi, sem hófst skömmu eftir að hann tók við ráðherraembætti og snýr að snemmtækri íhlutun í málefni barna. Gera má ráð fyrir að það verði samþykkt og komi þá fram á Alþingi fljótlega eftir helgi.

Með því verður stigið eitt stærsta skref í félagslegum málefnum, sem stigið hefur verið á Íslandi áratugum saman. Ráðherrann gerir ráð fyrir að innleiðing þeirra kerfisbreytinga, sem í því felast muni taka þrjú ár.

Þetta málþing telst til meiri háttar tíðinda. 

Innlendar Fréttir