-1 C
Grindavik
23. nóvember, 2020

Tíminn er að renna út hvað varðar aðgerðir vegna loftslagsmála

Skyldulesning

Leiðtogar heimsins eru að renna út á tíma hvað varðar að grípa til grænna aðgerða varðandi loftslagsmál en slíkar aðgerðir gætu hjálpað heimsbyggðinni að vinna úr heimsfaraldri kórónuveirunnar og efnahagslegum afleiðingum hans. Aðeins ár er í ráðstefnum SÞ þar sem framtíð loftslagsmála á jörðinni mun ráðast að sögn sérfræðinga.

Áhersla á grænar aðgerðir til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda hefur verið nefnd sem mikilvægur þáttur í að koma efnahagsmálum heimsins aftur á réttan kjöl um leið og reynt verður að draga úr loftslagsbreytingunum.

Engin merki eru um að farið sé að hægja á hnattrænni hlýnun og sífellt fleiri aðvörunarljós blikka hvað varðar tjón á umhverfinu og loftslaginu. Þetta á við um allan heiminn.

The Guardian hefur eftir Ban Ki-moon, fyrrum aðalritara SÞ, að það sé mikilvægt að byggja efnahaginn upp á nýjan leik en ef ekki tekst að halda hækkun meðalhita á heimsvísu undir 1,5 gráðum sé stórt vandamál yfirvofandi. Það verði að grípa til enn harðari aðgerða.

Ban sagði einnig að á næstu mánuðum verði þjóðarleiðtogar að breyta áherslum sínum og beina sjónum sínum og aðgerðum í auknum mæli að nýjum og grænni leiðum til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda í staðinn fyrir að leggja áherslu á mikla losun til að byggja upp efnahaginn.

Hagfræðingar segja að ef endurreisn hagkerfisins byggist á grænum áherslum verði mörg störf strax til og það muni mæta þeirri fækkun starfa sem hafi orðið vegna sóttvarnaaðgerða vegna heimsfaraldursins.

Innlendar Fréttir