Tíu gista fangageymslur lögreglunnar eftir gærkvöldið og nóttina. Myndin er úr safni mbl.is.
mbl.is/Brynjar Gauti
Þrír voru handteknir í Austurbænum (hverfi 108) í nótt grunaðir um fjárkúgun og frelsissviptingu. Þeir eru vistaðir í fangageymslum lögreglu ásamt fimm til viðbótar sem einnig voru handteknir í gærkvöldi og í nótt fyrir margvísleg brot.
Um kvöldmatarleytið voru þrír handteknir vegna gruns um sölu og dreifingu fíkniefna og eru þeir allir vistaðir í fangaklefa í þágu rannsóknar máls.
Ökumaður sem lögregla stöðvaði í hverfi 108 um níuleytið í gærkvöldi er grunaður um ólöglega dvöl í landinu og vistaður í fangaklefa.
Á tíunda tímanum var maður handtekinn á höfuðborgarsvæðinu grunaður um eignaspjöll og vistaður í fangageymslu lögreglunnar í þágu rannsóknar málsins.
Einn var handtekinn af lögreglu um tíuleytið vegna líkamsárásar og gistir hann einnig fangageymslur lögreglunnar.
Lögreglu barst tilkynning um æstan mann í miðborg Reykjavíkur skömmu fyrir miðnætti. Lögreglan handtók manninn og vistaði í fangageymslu. Þar verður hann þar til rennur af honum en hann var í annarlegu ástandi.
Þrjár tilkynningar bárust til lögreglunnar um samkvæmishávaða í nótt. Í hverfi 101, í Austurbænum (hverfi 105) í Hafnarfirði.
Síðdegis í gær stöðvaði lögreglan för bifreiðar í Hafnarfirði þar sem ökumaðurinn er grunaður um akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna. Ökumaðurinn var sviptur ökuréttindum til bráðabirgða. Laus að lokinni sýnatöku.
Lögreglan stöðvaði för bifreiðar í hverfi 105 í nótt en ökumaðurinn er grunaður um akstur undir áhrifum lyfja og að aka um á ótryggðu ökutæki. Laus að lokinni sýnatöku.