Sigmundur Ernir Rúnarsson er ánægður með niðurstöðu Mannréttindadómstóls Evrópu en dómstóllinn vísaði frá máli Guðmundar Spartakusar Ómarssonar gegn íslenska ríkinu.
Guðmundur kærði íslenska ríkið til dómstólsins í kjölfar þess að Hæstiréttur sýknaði Sigmund, sjónvarpsmann og þáverandi dagskrárstjóra Hringbrautar, af tveggja milljón króna skaðabótakröfu vegna meintra meinyrða.
„Ég er bara afskaplega ánægður og þakklátur. Þetta er náttúrulega mjög mikilvægt fyrir okkur fjölmiðlafólk,“ sagði Sigmundur í samtali við mbl.is.
Niðurstaða Mannréttindadómstólsins var sú að engin ástæða væri til að efast um að blaðamaður Hringbrautar hefði verið í góðri trú um efni umfjöllunarinnar.
„Þarna er í rauninni bæði tjáninga– og fréttafrelsi hampað á kostnað krafna af þessu tagi sem Guðmundur leggur fram,“ sagði Sigmundur. En kæra Guðmundar til Mannréttindadómstólsins byggði á því að brotið hefði verið á rétti hans til friðhelgi einkalífs.
„Þetta er búið að kosta okkur töluverðan pening, sérstaklega svona pínulitla sjónvarpsstöð eins og Hringbraut er, og í rauninni merkilegt að hún skuli leggja út kostnað við að verja mál sitt á meðan að stærsti fjölmiðill landsins guggnar og gefur þetta frá sér,“ sagði Sigmundur.
„En engu að síður, við vildum láta á þetta reyna í nafni tjáningarfrelsis og fjölmiðlafrelsis sem er okkur afar mikilvægt.“