Það var farið að rökkva á Þorláksmessu. Snjór er með mesta móti í ár og voru börnin iðin við hina ýmsu leiki í snjónum. Spottakorn ofan við þorpið sjáum við tvo drengi, að leggja lokahönd á ansi mikið snjóhús, sem þeir hafa verið að byggja undanfarið.  Drengirnir eru  á að giska 10 – 11 ára og hafa greinilegt yndi af bjástrinu. Þetta eru þeir bræður Denni og Bói.

“Heldurðu að við fáum leyfi til að sofa hérna?” spyr Denni. “Ég veit ekki, þau eru alltaf svo hrædd um okkur” svarar Bói um leið og hann leggur lokahönd á bygginguna. “Svona, þá er það komið, förum inn og fáum okkur kakó!” Móðir þeirra hefur útbúið kakó á brúsa handa þeim og þeir smokra sér inn í snjóhúsið og setjast á gólfið. “Þetta er frábært!” segir Denni um leiðog hann hellir kakói í plastmálin sem þeir höfðu fengið með. “Heldurðu að stóru strákarnir láti þetta hús í friði?” spyr Bói um leið og hann sýpur á heitu kakóinu. “Það ætla ég að vona, annars verðum við að byggja nýtt hús” svarar Denni og kemur sér þægilega fyrir á gólfinu.

Drengirnir ræða þennan möguleika á meðan þeir súpa á kakóinu og hafa það notalegt. Það er farið að síga höfgi á þá er mikill umgangur verður fyrir utan, þeir hrökkva upp, líta hvor á annan og hugsa báðir það sama….”Stóru strákarnir!” Rauðleitum bjarma slær fyrir dyrnar og strákarnir troðast báðir í einu út til að sjá illvirkjana. Þegar út er komið detta af þeim andlitin því ekki eru þetta stóru strákarnir, heldur stendur þarna hreindýr með rautt nef sem glóir af. “Rúdolf” hvísla þeir báðir. Jú, ekki ber á öðru, þarna standa 5-7 hreindýr ásamt sleða og niður af honum stígur rauðklædd vera! “Jólasveininn!” lýstur í huga þeirra beggja, lamaðir af skelfingu enda var þetta alltof undarlegt til að vera satt.

Jólasveinninn röltir til þeirra og heilsar hátt og snjallt svo strákarnir koma til sjálfs síns. “ Komiði sælir strákar, ekki eigið þið smá kakósopa handa gömlum manni? Það var orðið svolítið napurt á sleðanum og ég gleymdi nestinu heima”. Bói hendist inn í snjóhúsið og kemur út með brúsann, hellir í mál og réttir síðan jólasveininum. Hvorugur þeirra þorir að yrða á hinn mikla mann. Jólasveinninn klárar úr málinu og réttir þeim það til baka. “Þakka ykkur fyrir, þetta var gott!” Jólasveinninn styður höndum á mjöðm og horfir á strákana. “Trúið þið ekki á jólasveininn?” spyr hann svo, en hvorugur drengjanna getur svarað af ótta og undrun. Jólasveininn krýpur fyrir framan þá og segir; “Réttið fram hendurnar, ég ætla alltént að gefa ykkur eitthvað í staðinn fyrir kakósopann!” Jólasveinninn fer svo í vasa sinn og fiskar uppúr honum 2 litla og bláleita steina sem hann leggur í sínhvora hönd drengjanna. “Þetta eru heillasteinar” segir hann,”Geymið þá vel og þá mun ykkur vegna vel og svo bið ég góðan Guð að blessa ykkur” Fer hann síðan upp í sleða sinn, veifar og hreindýrin fara af stað.

“Strákar, strákar, ætlið þið að sofa hér í allt kvöld? Þið eigið að koma heim að borða strax!” hvín í einhverjum sem kemur inn í húsið með látum. Strákarnir hrökkva upp af svefni sínum og horfa sljóum augum á Erlu, stóru systur sem komin er að sækja þá. Bræðurnir horfast í augu en hvorugur minnist á drauminn.

Aðfangadagur rann upp og silaðist alltof hægt áfram. Bræðurnir leika sér allan daginn úti en hvorugur minnist á daginn áður. Loks er komið kvöld, messan og maturinn að baki og komið að hápunkti kvöldsins. Pakkar eru teknir upp og mikið hrópað og hlegið. Loks eru allir pakkar búnir nema einn og á honum stendur: Til Denna og Bóa  frá Jólasveininum. Mamma og Pabbi horfa hissa hvort á annað og kannast ekki við neitt né nokkur annar. Mamma réttir þeim pakkann og segist halda að einhver vina þeirra sé að gefa þeim eitthvað.  Bræðurnir taka við pakkanum og hugsa hvor í sínu lagi; “Þetta skyldi þó ekki vera satt?”

Pakkinn er frekar lítill og þegar hann er opnaður koma í ljós 2 litlir og bláleitir steinar sem bræðurnir kannast við frá deginum áður. Augun glennast upp og þeir horfa hvor á annan um leið og þeir hrópa hátt: “ Hann ER til!”

 

 

Höf: Stefán Ragnar Höskuldsson