8.4 C
Grindavik
20. júní, 2021

Trump dregur herlið Bandaríkjahers heim frá Sómalíu – Á 46 daga eftir í embætti

Skyldulesning

Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur fyrirskipað Bandaríkjaher að draga þá hermenn sem eftir eru í Sómalíu til baka úr landinu. Guardian greindi frá í morgun.

Samkvæmt frétt The Guardian er um að ræða 700 hermenn sem staðsettir eru í Sómalíu. Á næstu mánuðum munu þeir all flestir snúa heim en samkvæmt tilkynningu bandaríska varnarmálaráðuneytisins mun hluti þeirra flytjast til bandarískra herstöðva í nágrannaríkjum Sómalíu.

Ákvörðun Donalds Trumps er ein fjölmargra sem hafa með utanríkisstefnu Bandaríkjanna að gera og tekin er á síðustu vikum hans í embætti.

Í tilkynningu bandaríska utanríkisráðuneytisins segir að aðgerðin marki ekki breytingu á utanríkisstefnu Bandaríkjanna gagnvart Afríku og að Bandaríkin muni áfram styðja við baráttuna gegn öfgahreyfingum á svæðinu. Herlið Bandaríkjanna í Sómalíu hefur aðstoðað yfirvöld í landinu við baráttuna við sómalíska sjóræningja, sem herjað hafa á flutningaskip á svæðinu um langa hríð, og hryðjuverkasamtökin Al-Shabaab. Al-Shabaab hafa náin tengsl við Al-Qaeda og bera ábyrgð á fjölda hryðjuverkaárása í álfunni undanfarin ár.

Heimamenn hafa þegar biðlað til Joe Biden, verðandi forseta, um að snúa ákvörðun Trumps við þegar hann tekur við keflinu í janúar. Hefur Guardian eftir herforingjanum Ahmed Abdullahi Sheikh sem meðal annars hefur stýrt sérsveit sómalíska hersins, Danab, að ákvörðun Trumps gæti haft geigvænlegar afleiðingar í baráttunni við hryðjuverkasamtökin.

Bandarískir sérfræðingar í málefnum Sómalíu hafa slegið á sömu strengi í kjölfar ákvörðunarinnar. Sagði Tricia Bacon, fyrrum sérfræðingur í baráttunni við hryðjuverkaógnina í Sómalíu, að Al-Shabaab muni sjá brotthvarf Bandaríkjahers sem mikinn sigur, enda markmið þess að hrekja erlend öfl úr Sómalíu. Sagði hún enn fremur að betur færi á að svona ákvarðanir væru teknar af nýjum forseta frekar en þeim sem á útleið er.

spot_img
spot_img
spot_img

Innlendar Fréttir