Tucker Carlson hættur hjá Fox – Talaði máli Trump í útsendingu en hataði hann af „ástríðu“ bak við tjöldin – DV

0
87

Umdeildi sjónvarpsmaðurinn og öfga hægrimaðurinn Tucker Carlson er hættur hjá Fox News. Frá þessu var greint rétt í þessu.

Í yfirlýsingu frá Fox segir að fjölmiðillinn og Carlson hafi ákveðið að segja skilið hvor við annan. Hefur síðasti þáttur hans þegar verið sýndur og munu aðrir taka við keflinu þar til varanlegur eftirmaður er ráðinn.

Engin ástæða var gefin upp fyrir þessum sögulegu samvistaslitum. Nýlega gerði Fox þó sátt í meiðyrðamáli við fyrirtækið Dominion, sem framleiðir kosningavélar, út af fréttaflutningi Fox um forsetakosningarnar í Bandaríkjunum árið 2020. Hélt Dominion því fram að starfsemi þeirra hefði borið skaða af fölskum fréttum Fox um að átt hefði verið við vélarnar til að koma í veg fyrir að Donald Trump næði kjöri. Í málinu voru afhjúpuð textaskilaboð sem sýndu að persónulegar skoðanir Tucker Carlson voru ekki þær sömu og hann lýsti í þáttum sínum. Carlson, sem ítrekað talaði máli Trump í þáttum sínum, sagði í þessum skilaboðum að hann hataði forsetann fyrrverandi af ástríðu og hefði forsetatíð hans verið algjör hörmung.

Þættir Carlson komu ítrekað fyrir í gögnum málsins og hélt Dominion því fram að fréttaflutningur sjónvarpsmannsins hafi verið meiðandi. Sáttin í málinu var upp á tæpa 110 milljarða króna, en aldrei hefur fjölmiðill áður greitt svona háar bætur á grundvelli dómsáttar vegna  fréttaflutnings.

Carlson hefur um árabil verið með einn vinsælasta þáttinn í Bandarísku sjónvarpi.