Tupperware berst fyrir lífinu – DV

0
97

Allt frá lokum síðari heimsstyrjaldarinnar hefur bandaríska fyrirtækið Tupperware selt plastskálar og eldhúsáhöld í umtöluðum „Tupperware-partíum“. En nú gætu dagar fyrirtækisins brátt verið taldir því það glímir við mikla fjárhagsörðugleika. Staðan er svo alvarleg að á föstudaginn tilkynntu eigendur fyrirtækisins að „miklar efasemdir séu um að fyrirtækið geti haldið rekstri áfram“.

CNN segir að þetta hafi orðið til þess að sannkallað blóðbað átti sér stað á hlutabréfamarkaðnum í New York á mánudaginn. Hlutabréf í fyrirtækinu lækkuðu þá um tæplega helming. Áður hafði hlutabréfamarkaðurinn hótað að afskrá Tupperware því fyrirtækið hafði ekki skilað ársuppgjöri.

Fyrirtækið glímir við mikinn rekstrarvanda því þörf er á 700 milljónum dollara inn í reksturinn nú þegar. Ekki bætir úr skák að nú er orðið erfitt að selja vörur í „heimapartíum“ eins og venjan var með Tupperware.

Heimsfaraldur kórónuveirunnar lokaði nánast á þann möguleika og neytendur hafa úr miklu að velja á Internetinu þegar kemur að því að kaupa vörur.

Fyrirtækið hefur brugðist við þessu á síðustu árum og nú er hægt að kaupa vörur þess í verslunum og á netinu en þetta hefur ekki leyst vandann og á síðustu 12 mánuðum hefur verð hlutabréfa í fyrirtækinu lækkað um 90%.