Á fimmtudaginn var tilkynnt um hvarf Taylen Mosley, tveggja ára, eftir að móðir hans, hin tvítuga Pashun Jeffery, fannst látin á heimili þeirra í Lincoln Shores í St. Petersburg í Flórída. Hún hafði verið stungin til bana. Á föstudagskvöldið fannst Taylen látinn í kjafti krókódíls í Dell Holmes Park. Daily Mail segir að lögreglan hafi staðfest að líkið sé af Taylen. Lögreglan drap krókódílinn.
Faðir Taylen, Thomas Mosley 21 árs, hefur verið handtekinn vegna málsins. Hann er grunaður um að hafa myrt son sinn og barnsmóður.
Lík Taylen fannst í um 15 km fjarlægð frá heimili hans. Dánarorsök hans liggur ekki fyrir.
NBC segir að Thomas hafi komið á sjúkrahús áður en hann var handtekinn. Hann er sagður hafa verið með marga skurði á handleggjum og höndum. Hann hefur ekki viljað tjá sig við lögregluna.
Pashun Jeffery. Mynd:Lögreglan Fjölskylda mæðginanna sá þau síðast síðdegis á miðvikudaginn og bað húsvörð um að kanna aðstæðurnar á heimilinu á fimmtudaginn eftir að hún náði ekki sambandi við Pashun.
Nágrannar segjast hafa heyrt mikinn hávaða frá íbúð þeirra um klukkan 20.30 á miðvikudagskvöldið en hringdu ekki í lögregluna. Skömmu eftir þetta kom Thomas heim til móður sinnar og var þá með fyrrgreinda skurði á handleggjum og höndum.