Tveggja daga pásukvöð brot á reglum EES – Vísir

0
126

Tveggja daga pásukvöð brot á reglum EES Sú staðreynd að erlend rútufyrirtæki innan geta ekki boðið upp á lengri en tíu daga samfelldar rútuferðir er brot á EES-reglum. Reglurnar takmarki markaðsaðgengi erlendra rútufyrirtækja.

Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) sendi í dag rökstutt álit til Íslands vegna brots á EES-reglum um tímabundna gestaflutninga. EES-reglur um farþegaflutninga kveða á um að flutningsaðila frá einu EES-ríki sé heimilt að stunda tilfallandi gestaflutninga á landi í öðru EES-ríki tímabundið.

Núgildandi löggjöf á Íslandi kveður á um að flutningsaðilum frá öðrum ríkjum innan EES sé heimilt að stunda tímabundna gestaflutninga í allt að tíu samfellda daga í hverjum mánuði. Lögin kveða einnig á um skyldu þeirra sem stunda tímabundna gestaflutninga til að gera hlé á starfsemi í að minnsta kosti tvo virka daga áður en annað tíu daga tímabil hefst. 

„Þetta þýðir til dæmis að erlendir flutningsaðilar geta ekki boðið upp á 14 daga rútuferð um Ísland, jafnvel þótt slík þjónusta sé veitt tímabundið,“ segir í áliti ESA.

Rökstudda álitið var sent til Íslands í kjölfar formlegs áminningarbréfs sem sent var í maí 2022. Í bréfi sínu komst ESA að þeirri niðurstöðu að með því að halda í gildi innlendri löggjöf, sem felur í sér of takmarkandi skilyrði fyrir því að flutningsaðilar frá öðrum EES-ríkjum geti stundað gestaflutninga á Íslandi, brjóti Ísland í bága við EES-reglur.

Í rökstuddu áliti ESA kemur fram að tímabundið eðli gestaflutninga geti ekki eingöngu ákvarðast af tímalengd. Hin stranga og sjálfkrafa takmörkun sem núgildandi löggjöf kveður á um sé því ekki í samræmi við EES-reglur og hina almennu meginreglu um frelsi til að veita þjónustu.

Rökstutt álit er skref númer tvö í samningsbrotamáli gegn EES-EFTA-ríki. Íslenska ríkið hefur nú tveggja mánaða frest til að gera nauðsynlegar ráðstafanir til að hlíta álitinu, en að þeim fresti loknum getur ESA ákveðið að höfða mál fyrir EFTA-dómstólnum.

Tengdar fréttir ESA segir reglur um vernd dýra brotnar með blóðmerahaldi Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) segir Íslendinga brjóta gegn reglum EES um vernd dýra sem notuð eru í vísindaskyni með blóðmerahaldi. Stofnunin sendi formlegt áminningarbréf til Íslands í dag þar sem kallað er eftir því að reglunum verði fylgt.

10. maí 2023 10:48

Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Mest lesið
Fleiri fréttir Sjá meira