Tveir slasaðir eftir árekstur strætós og fólksbíls Nokkrar umferðartafir voru fyrir skömmu neðst á Suðurlandsbraut í vesturátt eftir að strætisvagni var ekið aftan á fólksbíl á gatnamótum. Sjúkralið fór vettvang að hlúa að tveimur, sem eru með minniháttar áverka.
Lögregla var með nokkuð mikið viðbragð á svæðinu og ein akrein er lokuð. Fyrir framan strætisvagninn myndaðist stærðarinnar pollur sem laganna verðir rannsökuðu. Ekki liggur fyrir hvers konar vökvi var í pollinum, sem hefur nú verið þurrkaður upp.
Varðstjóri hjá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins segir í samtali við Vísi að engin alvarleg slys hafi orðið á fólki. Einn sjúkrabíll hafi þó verið sendur á vettvang þar sem tveir kenndu sér eymsla eftir áreksturinn.