5.4 C
Grindavik
18. maí, 2021

Tvö­faldaði bólu­setningar­mark­miðið og stað­festi fram­boð 2024

Skyldulesning

Joe Biden Bandaríkjaforseti tilkynnti í dag að ríkisstjórn hans hygðist útdeila 200 milljón bóluefnisskömmtum á fyrstu hundrað dögum hans í embætti. Það eru tvöfalt fleiri skammtar en Biden hafði áður lofað að yrðu gefnir á sama tímabili.

Þetta kom fram í upphafi fyrsta blaðamannafundar Bidens síðan hann tók við forsetaembættinu. Hann kvaðst meðvitaður um að hið uppfærða markmið um tvö hundruð milljónir skammta væri djarft. „En ekkert annað land í heiminum kemst einu sinni nálægt því sem við erum að gera,“ sagði forsetinn.

Biden þurfti þó einnig að svara spurningum um öllu vandasamari málefni. Þannig hefur ríkisstjórn hans sætt talsverðri gagnrýni síðustu vikur vegna ástandsins á landamærum Bandaríkjanna og Mexíkó, þar sem börnum sem koma til landsins án fylgdar fullorðinna er enn haldið í þúsundatali.

Blaðamannafundinn í heild sinni má horfa á í spilaranum hér fyrir neðan.

Biden var inntur eftir því hvort stefna hans í málaflokknum stuðlaði ef til vill að aukningu í straumi barna sem koma ein til Bandaríkjanna frá Mið- og Suður-Ameríku. Hann þvertók fyrir það; sagði aukninguna árstíðabundna og eðlilega, auk þess sem hann kenndi fyrirrennara sínum Donald Trump um ástandið.

Þá lagði Biden áherslu á að staðan á landamærunum teldist ekki „neyðarástand“ og lofaði að tryggja aðgengi fjölmiðla að landamærastöðvunum, hvar innflytjendum er haldið.

Biden sagði einnig að hann hygðist gefa kost á sér til endurkjörs í næstu forsetakosningum árið 2024. Hann hafði ekki staðfest þetta fyrr en nú. Biden, sem nú er 78 ára, verður 82 ára þegar kosningarnar fara fram. Næði hann endurkjöri yrði hann því 86 ára í lok embættistíðar sinnar.

spot_img
spot_img
spot_img

Innlendar Fréttir