Úkraínumenn sagðir hafa ætlað að drepa Pútín síðastliðinn sunnudag – DV

0
164

Þýska blaðið Bild fullyrðir að úkraínska leyniþjónustan hafi ætlað að drepa Vladimír Pútín Rússlandsforseta síðastliðinn sunnudag. Úkraínumenn eru sagðir hafa notað dróna af gerðinni UJ-22, sem var hlaðinn 17 kílóum af öflugu sprengiefni. Ætlunarverkið mistókst þegar dróninn brotlenti nokkrum kílómetrum frá skotmarkinu.

Í frétt Bild, sem Mail Online vitnar meðal annars til, kemur fram að skotmarkið hafi verið Rudnevo-byggingarsvæðið skammt frá Moskvu sem Pútín átti að heimsækja á sunnudag.

Dróninn sem er sagður hafa verið notaður. Bild vísar meðal annars í upplýsingar frá úkraínska aðgerðarsinnanum Yuriy Romanenko en hann segist hafa náin tengsl inn í úkraínsku leyniþjónustuna.

Romanenko segir að dróninn hafi innihaldið 17 kíló af C4-sprengiefni en brotlent austur af Rudnevo-svæðinu, eða 18 kílómetrum frá skotmarkinu.

Í færslu á Twitter-síðu sinni sagði Romanenko:

„Pútín, við erum að nálgast. Allir sáu fréttirnar um drónann sem var sendur til Mosvku en sprakk ekki. Þessi dróni var sendur á loft af góðri ástæðu,“ sagði hann og rakti upplýsingar sem hann kvaðst hafa um meint banatilræði.

Hann segir að dróninn hafi verið sendur á loft frá austurhluta Úkraínu og komist óséður fram hjá öllum eftirlitskerfum Rússa alla leið til Moskvu.

Í frétt Mail Online kemur fram að Pútín hafi ekki mætt á Rudnevo-svæðið á sunnudag en ástæðan fyrir því liggur ekki fyrir. Úkraínska leyniþjónustan er sögð hafa fengið upplýsingar um að hann myndi mæta á svæðið.

Hvort upplýsingar Bild og Romanenko séu réttar skal ósagt látið en það er þó ljóst að Pútín er meðvitaður um að hættan á banatilræði er sannarlega fyrir hendi. Hann er sagður hafa farið mjög varlega síðustu mánuði og haldið sig að mestu til hlés.

Sergej Sumlenny, úkraínskur öryggissérfræðingur, segir við Bild að árás á þjóðarleiðtoga eins og Vladimír Pútín með UJ-22 dróna sé erfið í framkvæmd, jafnvel ómöguleg.

„En sú staðreynd að dróninn hafi komist alla þessa leið er ákveðinn skellur fyrir rússneska einræðisherrann.“