6 C
Grindavik
21. apríl, 2021

Úlfur lýsir í óhugnanlegu atviki í Garðabæ – Ungir drengir réðust að honum með stórum hníf og hnúajárni – „Ég hvet alla til að vera á varðbergi“

Skyldulesning

Úlfur Atlason, verkefnastjóri Skema í HR, lenti í óhugnanlegri lífsreynslu í gær, þegar að tveir ungir piltar réðust að honum með vopnum í undirgöngum í Garðabæ. Hann greindi fyrst frá atvikinu í íbúahóp í Garðabæ, með yfirskriftinni:

„Stórhættulegir piltar eru á ferð um bæinn!“

Í samtali við DV lýsti Úlfur atvikinu. Í gærkvöldi hafi hann verið í göngutúr um Efri Lund í Garðabæ, líkt og hann segist oft gera. Þegar hann hafi gengið í gegnum undirgöng, hafi tvær vespur komið á ógnarhraða og báðum þeirra hafi verið tveir farþegar. Önnur hafi keyrt fram hjá honum, en hin numið staðar við hlið hans, og þaðan hafi strákur stokkið, haldandi á stórum hníf. Úlfur segir að strákurinn hafi farið að „bulla“ og hóta honum með hnífnum.

Síðan hafi annar strákur komið af hinni vespunni, og sá hafi verið með hnúajárn og einnig haft í hótunum við Úlf. Hann segir drengina hafi verið sextán til átján ára. Þeir hafi otað vopnum sínum að sér, til að mynda hafi hnúajárnið verið ansi nálægt andlitinu hans á tímapunkti þegar annar drengjanna þóttist ætla að kýla hann og þá hafi hnífurinn einnig verið hættulega nálægt honum.

„Erum við ekki góðir?“

Úlfur slapp sem betur fer áverkalaus, en hann segist hafa gert sitt besta til að „vinna með þeim“. Honum grunar að þeir hafi verið á einhverjum efnum. Annar þeirra hafi til að mynda spurt hann hvort „þeir væru ekki góðir?“ og svo hvort „þeir væru ekki örugglega á Íslandi“. Þegar að úlfur svaraði því játandi hafi þeir svo farið á brott.

Þá segist Úlfur hafa drifið sig í öfuga átt við þá sem drengirnir fóru, síðan hafi hann falið sig á bak við gám og beðið eftir því að kærastinn hans myndi sækja sig. Þegar heim var komið hafi hann gert lögreglunni viðvart sem er nú með málið til rannsóknar.

Þá segist hann hafa tekið eftir því að skemmdarverk hafi verið unnin á gróðurþekju báðum megin við göngin. Þó hann viti ekki til þess að sömu einstaklingar hafi verið að verki þá grunar honum það, þar sem að hjólför eru ansi áberandi.

Eins og kúrekar í villta vestrinu

Líkt og áður segir hafi drengirnir verið sextán til átján ára gamlir. Annar þeirra verið þrekvaxinn og rúmlega 175cm á hæð, en hinn grannvaxinn og 180cm á hæð. Þá hafi önnur vespan verið rauð á litinn. Hann segir drengina hafa verið með tóbaksklúta fyrir andlitinu, líkt og „kúrekar í villta vestrinu“.

Eins og eðlilegt er þá segir Úlfur þessa uppákomu hafa verið ansi ógnvænlega. Hann hafi verið ansi hræddur og treysti sér varla út úr húsi eins og er. Vegna alvarleika málsins finnst honum gott að upplýsa almenning um það og vonast til þess að málið finni sinn enda. Hann biður alla um að vera á varðbergi og ræða við börnin sín um svona mál.

„Ég hvet alla til að vera á varðbergi. Það er líka mikilvægt að ræða við börnin um þessa hættu. Góð regla er að vera aldrei einn a ferð á kvöldin.“

Úlfur segir að hnífur drengsins hafi verið líkur þessum.
Mynd af vettvangi.
Þarna má sjá skemmdina á gróðurþekjunni.

spot_img
spot_img
spot_img

Innlendar Fréttir