5 C
Grindavik
12. maí, 2021

Um 90% ánægð með störf almannavarna

Skyldulesning

Landsmenn bera mikið traust til þríeykis almannavarna, samkvæmt könnun Félagsvísindastofnunar.

Landsmenn bera mikið traust til þríeykis almannavarna, samkvæmt könnun Félagsvísindastofnunar.

mbl.is/Eggert Jóhannesson

Mikil ánægja er með störf almannavarna í kórónuveirufaraldrinum og traust til stofnunarinnar, landlæknis og sóttvarnalæknis til að taka ákvarðanir um viðbrögð við kórónuveirufaraldrinum er yfirgnæfandi. Þetta sýna niðurstöður skoðanakönnunar Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands.

Daglega er könnunin send til 400 þátttakenda í netpanel Félagsvísindastofnunar og því hægt að fylgjast með breytingum á afstöðu Íslendinga eftir dögum. Í þessari frétt er miðað við tölur dagana 29. mars til 8. apríl.

Undanfarna viku hafa á bilinu 88-94% þáttakenda sagst mjög eða frekar ánægðir með aðgerðir almannavarna. Konur eru eilítið ánægðari með störfin en um 5-13 prósentustigum munar, eftir dögum á viðhorfi kynjanna.

Um 94-97% þátttakenda segjast treysta sóttvarnalækni til að taka ákvarðanir um viðbrögð í faraldrinum og 92-97% treysta embætti landlæknis. Nokkru færri treysta ríkisstjórninni til þess, eða um 60%.

Flestir telja sig löghlýðnari en aðra

Í könnuninni er fólk einnig spurt út í það að hversu miklu leyti það fylgir tilmælum landlæknis og almannavarna. Á bilinu 73-77% þátttakenda hafa, í fjórðu bylgju faraldursins, sagst fylgja þeim tilmælum að öllu eða mjög miklu leyti.

Þá er fólk einnig spurt hversu mikla trú það hafi á að aðrir geri slíkt hið sama. Það þarf kannski ekki að koma á óvart, en þátttakendur hafa mun meiri trú á eigin hlýðni en annarra. Þannig segjast á bilinu 62-69% telja að það fólk, sem það er í mestum samskiptum við, fylgi tilmælunum að mjög miklu eða öllu leyti. Hins vegar telja aðeins 21-32% aðspurðra að Íslendingar almennt geri slíkt. 

Frá því fallið var frá kröfum um skyldusóttkví á sóttkvíarhótelum, hefur yfirgnæfandi meirihluti sagst vilja harðari aðgerðir á landamærum, eða á bilinu 65-75%. Til samanburðar vilja aðeins á bilinu 14-20% að hert sé á aðgerðum innanlands.

Þátttakendur eru einnig spurðir hvort þeir myndu kjósa frekar, ef aðeins væri hægt að herða á aðgerðum annaðhvort á landamærum eða innanlands. Segjast þá á bilinu 0-4% þátttakenda frekar myndu kjósa hertar aðgerðir innanlands, en aðrir tækju landamærin. Í spurningunni virðist að vísu ekki gert ráð fyrir að einhver kynni að vilja hvorugt.

Nánar má lesa um könnunina hér.

spot_img
spot_img
spot_img

Innlendar Fréttir