4 C
Grindavik
25. febrúar, 2021

Um stórsöguleg heimskustrik !

Skyldulesning

Napóleon Bonaparte hefur löngum verið talinn til mikilmenna Sögunnar, en slóð hans er öll líkum þakin. Hann var ábyrgur fyrir dauða hundraða þúsunda manna vítt og breitt um Evrópu og stráði óhamingju og bölvun yfir alla álfuna. Valdagræðgi hans og yfirgangshneigð átti sér engin takmörk. Hann var Korsíkumaður og þóttist þó holdi klæddur mikilleiki Frakklands. Það er ekki nýtt að leiðtogar af slíku tagi byggi hugmyndir sínar og stefnu á fölskum forsendum !

Hitler var Austurríkismaður en þóttist vera þýskastur allra Þjóðverja. Stalín var Georgíumaður en þóttist rússneskari en nokkur Rússi. Alls staðar viðhafa slíkir ógæfuleiðtogar blekkingar og svik til að halda völdum og ráðskast með líf annarra manna af ótakmörkuðu kæruleysi !

Napóleon háði stríð um alla Evrópu til að leggja undir sig lönd sem aðrir áttu og voru fjölbyggð. Hann virtist ekki gera sér neina grein fyrir því að Frakkland taldist eiga gífurlegt landflæmi í Vesturheimi og hefði hann bara flutt franska landnema þangað í stórum stíl og byrjað að nýta það land, gat hann aukið veldi og viðgang Frakklands margfaldlega án styrjaldar og stórfelldra blóðsúthellinga.

Þannig hefði hann getað unnið landinu, sem hann þóttist vilja allt hið besta, meira gagn en nokkur annar !

En menn eru bara menn og þarna gerði Korsíkumaðurinn sín stærstu mistök. Hann virtist algjörlega blindur á þá miklu útþenslu möguleika sem franska ríkið átti í Vesturheimi. Hann var hugarfarslega negldur við Evrópusviðið og vildi heldur standa þar í styrjöldum upp á óljósan ávinning. Kom ekki hugsun sinni í víðara samhengi og því fór sem fór !

Thomas Jefferson Bandaríkjaforseti sá hinsvegar hið gullna tækifæri sem þarna bauðst þegar Napóleon vantaði fjármagn til frekari stríðsreksturs og keypti af honum lönd Frakka í Ameríku árið 1803 !

Sá gjörningur er hið svokallaða Louisiana Purchase. Um var að ræða svo mikið landsvæði að það var í raun ekki hægt að verðleggja það. Hin ungu Bandaríki fengu þarna 828.000 fermílur lands sem náði til 15 ríkja eins og þau eru nú, og tveggja landsvæða í Kanada að auki, fyrir skitnar 15 milljónir dala !

Bandaríkin næstum því tvöfölduðust að stærð við þetta og ávinningurinn fyrir þau var stjarnfræðilegur í öllu tilliti. Rúmum áratug síðar hafði Napóleon spilað öllu úr höndum sér og endaði síðan ævidagana sem fangi Breta á Elínarey. Skömm er óhófs ævi !

Árið 1867 keypti svo Bandaríkjastjórn Alaska í heilu lagi af rússnesku keisarastjórninni fyrir 7,2 milljónir Bandaríkjadala. Það vantaði víst meiri pening fyrir óhófslíf yfirklassans í Pétursborg !

Kaupin voru talin svo vitlaus af almenningi í Bandaríkjunum sjálfum að almennt var talað þar um Seward-vitleysuna, en William Seward utanríkisráðherra var helsti hvatamaður kaupanna !

Það kom svo í ljós síðar að Alaska er þvílík gullkista að auðlindagæðum að þar verður seint hægt að koma verðstimpli við. Rússar léku þar slíkan glóruleysis afleik í milliríkjasamskiptum að hann er aðeins sambærilegur við fyrrgreint heimskustrik Napóleons !

Það er alltaf þjóðum tap að eiga rotin stjórnvöld og afleita forustusauði !


Flokkur: Stjórnmál og samfélag |


«
Síðasta færsla

Innlendar Fréttir