3 C
Grindavik
28. nóvember, 2020

Um ýmsar söguginningar !

Skyldulesning

Oft hefur það vakið furðu mína hvað sögulegar uppsetningar hafa orðið að föstum viðmiðum í sögu okkar án þess að full vissa sé til staðar hvort um raunverulegar staðreyndir sé þar að ræða. Það er stundum því líkast sem einhver rómantísk hughrif hafi ráðið textanum og svo hefur hver étið upp eftir öðrum og enginn vitað með vissu hvað hann var að segja !

Við höfum alla tíð eignað Snorra Sturlusyni ýmis ritverk þó við höfum ekkert sem sannar það í raun að hann hafi verið þar höfundurinn. Kannski skrifaði Styrmir fróði Kárason sum þessara verka og þá hugsanlega í skjóli Snorra. Snorri er 62 ára gamall eða þar um bil þegar hann er drepinn.  

Alla ævi stóð hann í auðsöfnun og veraldarvafstri og maður fær varla séð hvenær hann hefði átt að sinna ritverkum sem hlutu að taka drjúgan tíma. En samt fær hann þennan höfundarstimpil þó enginn viti með vissu hvort hann verðskuldar hann eða hafi yfirleitt getað litið upp frá auragræðginni ?

Ingólfur Arnarson er jafnan skilgreindur fyrsti landnámsmaðurinn þó vitað sé að hann var það ekki. Þar spilar auðvitað inn í dæmið að hann var landnámsmaður Reykjavíkur, en það er ekki það sama. Íslendingar eiga það til að vera miklar ,, höfðingjasleikjur “ og fyrsti landnámsmaðurinn mátti því ekki vera venjulegur almúgamaður, hann varð að vera eitthvað meira. Náttfari kom því ekki til mála frekar en einhver tómthúsmaður á Blönduósi. En þar varð sá fyrsti auðvitað að vera danskur kaupmaður !

Gunnar á Hlíðarenda gekk á gerða eiða og sneri með þeim hætti aftur. Hann sveik samninga og enginn veit hvað dró hann til þess í raun ? Var hann kannski enn haldinn af girndarráðs-lönguninni til Hallgerðar eftir allt sem á undan var gengið ? Var hún kannski í raun og veru ,,fagra hlíðin hans” ?

Við Íslendingar lofum stöðugt hetjuna sem sveik eiða sína, en Kolskeggur bróðir hans sem átti miklu betri og mannsæmdarlegri hlut að málunum er flestum gleymdur. Ég met hann þó meira en Gunnar fyrir orð hans er þeir bræður skildu. En þau voru þessi : ,,Hvorki vil ég á þessu níðast né öðru því sem mér er til trúað o.s.frv !

Við látum líka mikið með sjálfstæðisbaráttu okkar og samt höfum við enn dönsk konungsmerki á alþingishúsinu sem aldrei hafa verið tekin niður ? Hvers vegna í ósköpunum eru slík þrælahaldaratákn þar enn í dag ? Hefðu Benedikt Sveinsson eldri, Skúli Thoroddsen, Bjarni frá Vogi og aðrir þekktir forustumenn sjálfstæðisbaráttunnar viljað sjá það ? Ekki trúi ég því. Spyrja má því : Til hvers var eiginlega barist ? Sjálfsagt hafa eftirsitjandi Danasleikjur í valdastöðum ráðið því að svona var staðið að málum. En slíkt hefði varla getað gerst hjá annarri þjóð !

Kaþólska kirkjuvaldið var að miklu leyti slæmt fyrir þjóðina, einkum þó þegar á leið og Jón Arason var gildur fulltrúi þess á sínum tíma. Hann var enginn þjóðfrelsis-leiðtogi. Hollusta hans var ekki bundin við innlent vald, hún lá öll suður í Róm – páfinn var hans konungur í einu og öllu !

Þegar danska konungsvaldið snerist gegn pápískunni, fylgdi Jón ekki með. Hann var sami gallharði páfatrúarmaðurinn til síðasta dags. Síðari tíma yfirgangur konungsvaldsins skapaði svo smám saman þá sögulegu gyllingu fyrir kaþólskuna sem hún átti litla inneign fyrir. Þá var Jón Arason gerður að þjóðfrelsismanni, þvert ofan í allar staðreyndir, og þar við situr !

Gissur biskup Einarsson hefur á sama veg aldrei verið metinn sem skyldi af íslenskri þjóð vegna þess að hann var með siðbótinni og þar með á móti kaþólskunni. Tryggi Þórhallsson sýndi þó fram á í riti sínu um Gissur að hann var miklu þjóðræknari og betri maður en flestir hafa haldið. En það verður líklega seint viðurkennt sem staðreynd í íslenskri sögu !

Margt fleira mætti rekja hér, enda af nógu að taka, en ég ætla að láta staðar numið við þetta. Þeir sem á annað borð vilja skoða og rannsaka geta gert það út frá þessum punktum, en þeir eru vafalaust fáir !

Flestir virðast þeirrar gerðar að gleypa það sem fyrir þá er sett án nokkurra athugasemda og láta sögulegar ginningar og gyllingar sig litlu skipta. En rangfærslusagnfræði er aldrei af því góða, hversu rómantísk sem hún kann að þykja !


Innlendar Fréttir