2.3 C
Grindavik
27. janúar, 2023

Umfjöllun: Tékkland – Ísland 0-1 | Handarmark Gunnhildar kom Íslandi skrefi nær HM

Skyldulesning

Ísland steig stórt skref í átt að því markmiði sínu að komast á HM á næsta ári með 0-1 sigri á Tékklandi í Teplice í dag.

Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir skoraði eina mark leiksins á 36. mínútu með höndinni. Eftir langt innkast Sveindísar Jane Jónsdóttur átti Glódís Perla Viggósdóttir skalla sem var varinn í slána en Gunnhildur fylgdi á eftir og ýtti boltanum bókstaflega yfir línuna.

Með sigrinum komst Ísland á topp C-riðils og verður þar fram að síðustu tveimur leikjunum í undankeppninni. Ísland mætir fyrst Hvíta-Rússlandi og með sigri þar er ljóst að leikurinn gegn Hollandi í lokaumferð undankeppninnar verður hreinn úrslitaleikur um sæti á HM. Og þar dugir íslenska liðinu væntanlega jafntefli. Í versta falli fer íslenska liðið í umspil.

Þetta var þriðji sigur Íslands á Tékklandi síðasta hálfa árið. Líkt og fyrstu tveir leikirnir var leikurinn í dag mjög jafn. En eins og í fyrri leiknum í undankeppninni á Laugardalsvelli gaf íslenska liðið fá færi á sér en nýtti sín færi jafnframt afar vel.

Þorsteinn Halldórsson gerði aðeins eina breytingu á byrjunarliðinu frá 0-5 sigrinum á Hvíta-Rússlandi í Belgrad á fimmtudaginn. Sandra Sigurðardóttir stóð á milli stanganna í stað Cecilíu Ránar Rúnarsdóttur og átti afar náðugan dag en greip vel inn í og var vel vakandi.

Leikurinn var mikilvægur fyrir Ísland en enn mikilvægari fyrir Tékkland sem varð að vinna til að eiga möguleika á að ná 2. sæti riðilsins og komast þannig í umspil um sæti á HM. Tékkneska reyndi að sækja en gerði það af litlum mætti og komst lítið áleiðis gegn sterkri íslenskri vörn.

Ísland fékk þau fáu færi sem litu dagsins ljós í leiknum og þau komu nánast öll eftir föst leikatriði. Á 24. mínútu skallaði Agla María Albertsdóttir yfir úr dauðafæri eftir aukaspyrnu Karólínu Leu Vilhjálmsdóttur og skalla Glódísar.

Tólf mínútum síðar kom markið. Sveindís grýtti boltanum á nærsvæðið, Glódís átti skalla sem Barbora Votíkova varði í slána en Gunnhildur var fyrst að átta sig og setti boltann yfir línuna með hendinni eins og áður sagði.

Eftir tíu mínútur í seinni hálfleik setti Þorsteinn Söru Björk Gunnarsdóttur inn á í stað Berglindar Bjargar Þorvaldsdóttur og færði Karólína fremst, eitthvað sem hann hefur ekki áður gert. Karólína fór svo af velli á 80. mínútu og Elín Metta Jensen kom inn á.

Íslenska liðinu hélt boltanum enn betur í seinni hálfleik og Tékkarnir gerðu sig nánast aldrei líklega. Eða fengu ekki tækifæri til þess öllu heldur.

Hjartað tók reyndar smá kipp þegar Tékkar skoruðu í uppbótartíma en markið var dæmt af, líklega ranglega. Íslendingar geta alla vega ekki kvartað yfir skoska dómaranum Lorraine Watson.

Íslendingar buðu ekki upp á neina flugeldasýningu í dag og skapaði nánast ekkert í opnum leik en frammistaðan var mjög góð. Íslenska liðið var afar yfirvegað, skynsamt og sýndi engin veikleikamerki.

Eftir þennan sterka sigur er Ísland komið í lykilstöðu um í baráttunni um sæti á HM í Eyjaálfu á næsta ári. Og miðað við frammistöðuna í dag eru íslenska liðinu allir vegir færir.

spot_img
spot_img
spot_img

Innlendar Fréttir