2.3 C
Grindavik
27. nóvember, 2021

Umfjöllun: Ungverjaland – Ísland 0-1 | Berglind skaut stelpunum svo gott sem á EM

Skyldulesning

Íslenska kvennalandsliðið í fótbolta er svo gott sem komið á EM í Englandi 2022 eftir 0-1 sigur á Ungverjalandi í síðasta leik sínum í undankeppninni í dag. Berglind Björg Þorvaldsdóttir skoraði eina mark leiksins með frábæru skoti á 64. mínútu.

Afar líklegt er að íslenska liðið fari beint inn á EM sem eitt þeirra þriggja liða sem er með bestan árangur í 2. sæti riðlanna níu í undankeppninni. Það kemur betur í ljós í kvöld eða í versta falli ekki fyrr en á næsta ári. En Íslendingar gerðu það sem þeir þurftu að gera, unnu sex af átta leikjum sínum í riðlinum og tóku stig af Svíum.

Berglind skoraði jöfnunarmarkið í leiknum gegn Slóvakíu á fimmtudaginn og fylgdi því eftir með sigurmarkinu í dag. Berglind hefur á tíðum átt erfitt uppdráttar í íslenska landsliðinu en nýtti tækifærið sitt í þessari landsleikjahrinu frábærlega og mörk hennar voru þyngdar sinnar virði í gulli.

Besti leikmaður íslenska liðsins í leiknum í dag var samt Alexandra Jóhannsdóttir sem átti virkilega góðan leik á miðjunni. Hafnfirðingurinn byrjaði síðustu sex leiki Íslands í undankeppninni og hefur svo sannarlega stimplað sig inn í landsliðið og fer ekkert þaðan á næstunni. Íslenska vörnin var einnig afar traust og Rakel Hönnudóttir átti góða innkomu í seinni hálfleik. Sveindís Jane Jónsdóttir átti frábæra spretti en herslumuninn vantaði í skot og fyrirgjafir hennar í dag.

Glódís Perla Viggósdóttir lék hverja einustu mínútu í öllum leikjum Íslands í undankeppninni.ksí

Íslenska liðið spilaði mun betur í fyrri hálfleiknum í dag en í þeim fyrri gegn Slóvakíu á fimmtudaginn. Samt vantaði herslumuninn til að opna sterka ungverska vörn almennilega.

Íslendingar áttu helling af fyrirgjöfum og ein slík frá Sveindísi skapaði stórhættu á 19. mínútu en Réka Szöcs, góður markvörður Ungverja, sló boltann aftur fyrir.

Eina hættan sem Ungverjar sköpuðu í fyrri hálfleik kom á 22. mínútu. Anna Júlia Csiki átti þá skot beint úr aukaspyrnu sem Sandra Sigurðardóttir varði í horn.

Á 28. mínútu rétt missti Berglind af boltanum eftir stungusendingu Alexöndru. Boltinn barst hins vegar til Elínar Mettu Jensen sem átti skot í Berglindi. Skömmu síðar átti Berglind fyrirgjöf ætlaða Öglu Maríu Albertsdóttur en Barbara Szemán-Töth bjargaði á síðustu stundu.

Botninn datt svolítið úr leik íslenska liðið síðustu mínútur fyrri hálfleiks og fátt markvert gerðist þá. Staðan var markalaus í hálfleik.

Íslenska liðið byrjaði seinni hálfleikinn vel og á 51. mínútu slapp Berglind í gegn eftir sendingu Öglu Maríu en Szöcs varði vel.

Sveindís Jane Jónsdóttir var stórhættuleg í leiknum.ksí

Eftir þetta duttu Íslendingar niður og voru ekkert sérstaklega líklegir til að skora. Á 61. mínútu freistaði Jón Þór þess að hleypa nýju lífi í íslenska liðið og gerði tvöfalda skiptingu. Rakel og Svava Rós Guðmundsdóttir komu inn á fyrir Elínu Mettu og Öglu Maríu. Rakel átti góða innkomu í íslenska liðið en Svava Rós þurfti að fara meidd af velli rúmum stundarfjórðungi eftir að hún kom inn á.

Tvöfalda skiptingin bar tilætlaðan árangur því þremur mínútum eftir hana komst Ísland yfir. Boltinn barst þá til Berglindar rétt fyrir utan vítateigsbogann. Hún steig varnarmann Ungverja út og bjó sér til pláss til að láta skotið ríða af og boltinn söng í netinu. Frábært mark og það þurfti eitthvað svona einstaklingsframtak til að brjóta ísinn.

Fátt markvert gerðist það sem eftir lifði leiks. Íslenska liðið spilaði af öryggi, hélt boltanum ágætlega og stóðst þá sárafáu áhlaup sem Ungverjar gerðu. Zoé Magyarics átti laust skot á 70. mínútu sem Sandra varði örugglega en annars ógnaði ungverska liðið ekki neitt.

Íslenska liðið hélt út og fagnaði góðum sigri. Stelpurnar geta svo vonandi fagnað sæti á fjórða Evrópumótinu í röð fyrr en seinna.

spot_img
spot_img
spot_img

Innlendar Fréttir