Sundlaugarferð er venjulega hin besta skemmtun og ekki skemmir fyrir að slíkar ferðir bæta heilsuna. En flestum myndi eflaust bregða ef hár þeirra yrði grænt við það að fara í sund. Það er það sem gerðist í sundlaug í Kragerø í Noregi nýlega. Þar lentu sundlaugargestir, og starfsfólk, í því að hár þeirra varð grænt.
Vitað er að vatn, sem inniheldur klór, og sól geta breytt háralit fólks en það var ekki það sem gerðist í sundlauginni. Se og Hør skýrir frá þessu.
Fram kemur að Cathrine Aspnes, 29 ára, hafi farið heim með grænt hár. „Ég uppgötvaði allt í einu að hárið var grænt, aðallega á toppnum. Mér brá mikið og skildi ekki hvað hafði gerst,“ sagði hún.
Hún reyndi að fjarlægja litinn með tómatsósu, sem var húsráð sem hún fann, og auðvitað sjampói, en án árangurs.
Hún skýrði frá þessu á Facebook og sá þá að sumir vina henna höfðu lent í þessu sama.
Vandinn fór ekki fram hjá stjórnendum sundlaugarinnar. „Þegar hár fólks varð grænt, vissum við að eitthvað var að. Það var vegna þess að tveir starfsmenn sögðu okkur á mánudaginn að þeir væru með grænt hár eftir að hafa notað baðaðstöðuna,“ sagði Júlíus Finnsson, yfirmaður bygginga sveitarfélagsins, í samtali við VG.
Hann sagðist telja að gömul koparrör í sturtunum ættu sök á græna litnum.
Engin heilsufarshætta stafar af þessu.