Undursamlegir og öðruvísi saltfiskréttir – DV

0
163

Í þættinum Mat og heimilum á dögunum voru hjónin Ingimar Sigurðsson og Svetlana Björg Kostic, alla jafna kölluð Ceca, heimsótt heim í eldhúsið. Þau eru annálaðir matgæðingar og finnst gaman að matreiða og bjóða í matarboð.

Þegar þau matreiða er hugsað fyrir hverju smáatriði, gæði hráefnisins, matreiðslunni og framsetningunni. Ceca er fagurkeri fram í fingurgóma og ber réttina svo fallega fram að gestirnir byrja ávallt að borða fyrst með augunum. Ingimar er iðinn að bjóða félögunum sínum í matarupplifanir og er óhræddur að fara ótroðnar slóðir og prófa nýja rétti í matargerðinni. Þegar þau eru saman í eldhúsinu gerast töfrarnir.

Ingimar er vátryggingaráðgjafi og kirkjuvörður á Seltjarnarnesi, fæddur á Blönduósi en hefur búið á höfuðborgarsvæðinu síðan 1977, lengst af á Seltjarnarnesi.  Ceca er launafulltrúi hjá Landspítalanum,  fædd í Júgóslavíu, bjó lengst af í Króatíu en flutti til Íslands 1989 og hefur búið á Seltjarnarnesi síðan 1998.  Þau eru virk í samfélaginu sínu og vita ekkert betra en að búa á Nesinu. „Við eigum fjóra drengi, tvo og tvo. Okkur finnst mjög gaman að elda, bæði kjöt- og fiskrétti og erum dugleg að bjóða drengjunum og fjölskyldum þeirra í mat.“ 

Dásamleg stórfjölskyldustund

Aðspurð segjast þau ekki halda fast í sérstakar mathefðir og hafi meira gaman að því að prófa nýja rétti. „Við höldum ekki í neinar sérstakar hefðir um páska, annað en fá syni, tengdadætur og barnabörnin til okkar á föstudaginn langa. Þá býr hver og einn til sína eigin pitsu með því áleggi sem hann kýs. Þetta er dásamleg stórfjölskyldustund,“ segir Ingimar. Súkkulaðieggin fresta hjónin ekki mikið. „Við erum ekki mikið páskaeggjafólk en kaupum lítil páskaegg fyrir krakkana fyrir föstudaginn langa,“ segir Ceca og brosir.

Í þættinum Matur og heimili töfruðu þau fram tvo dýrindis saltfiskrétti sem bornir voru fram með lekkerheitum og samsetningin hin frumlegasta. Þessir réttir eru tilvaldir til að bjóða upp á á föstudaginn langa en margir hafa þá hefð að borða fisk þá. En það á þó ekki við Ingimar og Cecu. „Við borðum ekki endilega saltfisk á föstudaginn langa. Þessir réttir eiga sér sögu í gegnum matarklúbb sem ég setti á fót fyrir 30 árum. Þá elda ég 2-3 saltfiskrétti fyrir meðlimi, sem eru 8 auk þess sem einum heiðursgesti er boðið í hvert sinn,“ segir Ingimar og bætir við að ávallt séu nýjar uppskriftir prófaðar í hver skipti. „Þeir fá aldrei sama réttinn, við Ceca leggjum okkar fram við að finna nýjar og girnilegar útfærslur þar sem saltfiskurinn fær að njóta sín og það hefur tekist hingað til.“

Í Fréttablaðinu í gær deildu Ingimar og Ceca uppskriftunum af saltfiskréttunum undursamlegu með lesendum sem eiga svo sannarlega eftir að hitta í mark, bæði fyrir brögð og áferð.

 

Ofnbakaður saltfiskur með grófri kartöflumús, tomatillo og stökku grænkáli

Undirbúningstími: 5 mínútur

Vinnslu tími: 15 mínútur

Létt saltaðir þorskhnakkar ca. 150 g á mann

4 litlir grænir tómatar (tomatillo)

Grænkál

Bökunarkartöflur eftir smekk og fjölda

Dillkvistir

Salt

Olía

Hitið ofninn í 170°C.  Stráið olíu og salti yfir grænkálið og bakið í ofni í um það bil 10 mínútur. Flysjið utan af bökunarkartöflunum og skerið í hæfilega bita. Sjóðið, hellið vatni af og þurrkið. Setjið í pott með smjöri, salti og pipar, hrærið saman með sleif.  Þetta á að vera gróft. Hafið þorskinn í um það bil 150 g stykkjum.  Bakið í ofni í um það bil 10 mínútur við 180°, eftir þykkt stykkjanna. Takið brúnan bökunarpappír í öskjum og snúið upp á langhliðina, á móti hvorri hlið. Skerið tomatillo í þunnar sneiðar.

Framreiðsla:  Setjið pappírinn á disk og hafið vel opinn. Setjið kartöflurnar á botninn, fiskinn þar ofan á, skreytið með tomatillo, grænkáli og dillkvistum.

Saltfiskur með líkjörssósu

Undirbúningstími: 10

Vinnslu tími: 15 mínútur

Létt saltaðir þorskhnakkar 100 g á mann

2 beikonsneiðar (þykkar)

1 staup af DOM Bénedictine líkjör

10 valhnetur

10 möndlur

10 heslihnetur

20 rúsínur

Hveiti

Olía.

Veltið saltfiskinum upp úr hveiti.  Steikið í mikilli og vel heitri olíu, þar til fiskurinn er orðinn gullbrúnn.  Takið fiskinn af pönnunni og setjið á disk. Skerið beikonið í litla bita.  Látið beikonið malla á pönnunni ásamt þurrkuðu ávöxtunum. Gætið þess að hita ekki um of. Hellið líkjörnum yfir, hitið og kveikið í. Flamberið örstutt, ávextirnir mega ekki brenna.  Þá verða þeir seigir og rúsínurnar brenndar. Getur verið fínt að láta rúsínurnar liggja í leginum í smá stund og hella þeim yfir án þess að flambera. Setjið ávextina á diskinn með fiskinum.

Njótið vel.