Ungir frumkvöðlar með nýtt prótein snakk á markaðinn – STÖKK – DV

0
243

Verkefnið fyrirtækjasmiðja Ungra Frumkvöðla er haldið árlega og er á vegum JA Iceland. Þetta er keppnin sem áætluð fyrir framhaldsskólanema sem vilja stíga sín fyrstu skref í fyrirtækjarekstri með því að búa til sína eigin vöru eða þjónustu og koma henni á framfæri. Menntaskólar af öllu landinu taka þátt í keppninni en klárlega hefur Verzlunarskólinn oft haft yfirhöndina í verðlauna afhendingunni.

Í dag, 24.mars og á morgun, laugardaginn 25. mars verður síðan haldin hin árlega vörumessa Ungra frumkvöðla í Smáralind en þar koma öll fyrirtækin saman, setja upp sinn eigin bás og kynna sína vöru. Dómnefnd velur síðan vinningshafa í nokkrum mismunandi flokkum og skipar síðan eitt fyrirtæki sem „fyrirtæki ársins“ en fyrirtækið sem hlýtur þennan titil tekur þátt í Evrópukeppni Ungra Frumkvöðla – Gen_E, fyrir hönd íslands en þetta árið er keppnin haldin í Tyrklandi.

Rebekka Rakel Hákoníudóttir, Agnes Perla Sigurðardóttir, Árni Magnús Ragnarsson, Emil Nói Sigurhjartarson, Kiara Prabika Adhikari og María Viktoría Rúnarsdóttir eru einn hópurinn sem tekur þátt og hefur þróað sitt eigið snakk og ekkert venjulegt snakk. Þau hafa skipta með sér verkum og erum búin að hugsa fyrir hverju smá atriði.

Markmiðið að stofna eigið fyrirtæki

„Við erum öll nemendur á þriðja ári í Verzlunarskóla Íslands. Þar sem að við erum á viðskiptabraut erum við að taka frumkvöðlafræðiáfanga þar sem aðal markmið áfangans er að stofna okkar eigið fyrirtæki. Við völdum sjálf að koma saman og mynda þennan frábæra hóp enda erum við öll með brennandi áhuga á heilsu, íþróttum og heilbrigðu mataræði,“ segir Kiara.

Í hópnum eru eftirfarandi aðilar en allir gegna sérstöku hlutverki innan fyrirtækisins:

Rebekka Rakel Hákoníudóttir – Framkvæmdarstjóri STÖKK

Agnes Perla Sigurðardóttir – Hönnunarstjóri STÖKK

Árni Magnús Ragnarsson – Sölustjóri STÖKK

Emil Nói Sigurhjartarson – Fjármálastjóri STÖKK

Kiara Prabika Adhikari – Framleiðslu- og innkaupastjóri STÖKK

María Viktoría Rúnarsdóttir – Markaðsstjóri STÖKK

Snakkið þeirra er eins og áður sagði ekkert venjulegt snakk. „STÖKK er íslenskt prótein snakk sem er unnið í samstarfi með Iðnmark en Iðnmark er mjög reynslumikið snarl fyrirtæki, þau sjá til dæmis um framleiðslu á stjörnupoppi og stjörnusnakki,“ segir Kiara.

Heilbrigðari og ódýrari valkostur

Þau setja markið hátt við framreiðsluna og útkoman átti að vera hollt og gott snakk. „Markmið okkar í þessu verkefni var að ná að gera snakk sem er mjög bragðgott en einnig heilbrigðari og ódýrari valkostur en margt annað sem er á markaði. Við teljum að þessu markmiði hafi klárlega verið náð en snakkið okkar inniheldur 10 grömm af próteini í hverjum poka sem við erum mjög sátt með. Þar að auki er snakkið gert á heilbrigðari máta en flest annað snakk, í staðinn fyrir að vera steikt upp úr óhollri olíu er snakkið okkar sett í popp vél, þess vegna er snakkið okkar líka talsvert öðruvísi í laginu sem okkur þykir mjög skemmtilegt,“ segir Rebekka.

Hvaðan kemur hugmyndin bak við vöruna, snakkið ykkar?

„Okkur langaði allan tímann til þess að gera einhverja vöru sem tengdist heilbrigðum lífsstíl en við tókum okkur alveg dágóðan tíma í að ákveða hvaða vara það yrði. Okkur fannst síðan pælingin um að gera okkar eigið snakk mjög framandi og spennandi en allt ferlið sem og útkoman vakti áhugann okkar. Þar að auki vildum við auka úrvalið á heilbrigðu snarli sem er á hagstæðu verði. Við höfðum því samband við Iðnmark og tóku þau mjög vel í hugmyndina en þar með varð STÖKK að veruleika. Eins og við bjuggumst við var allt ferlið síðan mjög skemmtilegt en klárlega stendur upp úr þegar við fengum að smakka snakkið í fyrsta skiptið þar sem við vorum algjörlega himin lifandi. Einnig var ekkert eðlilega skemmtilegt að leyfa bekkjarfélögum okkar að smakka en þar voru viðbrögðin líka mjög jákvæð,“ segir Kiara og afar ánægð með hversu vel til tókst.

Aðspurðar segja þær stöllur að nafnið á snakkinu hafi komið strax. „Snakkið okkar heitir STÖKK en það var fyrsta og eina hugmyndin sem við komum með að nafni snakksins. Við heilluðumst strax að því þar sem nafnið er tvíþætt og tengist bæði íþróttum og snakki og því ákváðum við að stökkva á nafnið.“

Eru þið til að ljóstra upp hvernig uppskriftin varð til?

„Við byrjuðum einfaldlega á að fara með hugmyndina okkar að prótein snakki til Iðnmarks, síðan hófust umræður okkar á milli þar sem meðal annars var rætt um próteinmagn í hverjum poka, aðferðina við gerð snakksins og bragðmöguleikar ræddir. Við ákváðum síðan að prufa hvernig poppað sour cream snakk myndi koma út en eftir að við smökkuðum það bragð kom einfaldlega ekkert annað til greina þar sem bragðið hreyf okkur strax,“ segir Rebekka.

Hvernig áætlið þið að markaðssetja vöruna?

„Til að byrja með mun markaðssetning fyrirtækisins mest fara fram í gegnum samfélagsmiðla. En hægt er að fylgjast með okkur á Instagram, Tiktok og Facebook. Á öllum þessum miðlum er markmiðið að koma okkur sem mest á framfæri en einnig viljum við leita fleiri leiða til þess að auglýsa snakkið. Fyrst og fremst er samt markmið okkar að koma snakkinu í búðir og erum við mjög vongóð um að það takist. Seinna meir myndum við þó klárlega vilja auglýsa á öðrum vettvöngum eða fara vinna með samstörf og slíkt,“ segir Rebekka.

Eru þið búin að hanna umbúðirnar og lógó-ið?

„Við erum búin að hanna lógóið okkar en framtíðar umbúðir STÖKK eru ennþá í vinnslu. Á vörumessunni verðum við með snakkið okkar í tímabundnum glærum umbúðum og síðan verður lógóið límt þar á. Við erum samt mjög spennt fyrir því að vinna meira með framtíðarumbúðirnar okkar en við viljum reyna að hafa þær mjög stílhreinar og skemmtilegar,“ segja þær stöllur.

„Allir eru meira en velkomnir að koma að kíkja á básinn okkar á laugardaginn, 25. mars í Smáralind frá 11-18. Vörumessan er frábær leið fyrir alla til þess að smakka snakkið okkar og spjalla við teymið í leiðinni. Hlökkum til að sjá sem flesta,“ segir þær stöllur að lokum og hlakka mikið til helgarinnar með nýja snakkið STÖKK.

Hægt er að fylgjast með þessum öfluga hópi á samfélagsmiðlum eru reikningarnir þeirra eftirfarandi:

Instagram: stokksnakk

Tiktok: stokksnakk

Facebook: stokksnakk