Uppgötvuðu undarlegar glerkúlur á tunglinu – Geta innihaldið milljarða tonna af vatni – DV

0
212

Rannsóknir á sýnum, sem kínverska Chang‘e 5 geimfarið flutti til jarðarinnar frá tunglinu, sýna að vatn er að finna í kúlulaga loftsteinadropum sem fundust í jarðveginum. Loftsteinadroparnir eru úr gleri. Live Science segir að hugsanlega séu milljarðar tonna af vatni í kúlum af þessu tagi á tunglinu. Það væri þá hægt að nota það vatn fyrir fyrirhugaðar bækistöðvar manna á tunglinu.

Hugsanlega er svo mikið af kúlum af þessu tagi að þær innihaldi allt að 330 milljarða tonna af vatni.

Þetta kemur fram í nýrri rannsókn sem var birt í lok mars í vísindaritinu Nature Geoscience.

Glerkúlurnar myndast þegar loftsteinar skella á tunglinu á ógnarhraða. Þær dreifast síðan um yfirborð þess.

Jarðvegurinn á tunglinu inniheldur súrefni og það þýðir að það gera þessar kúlur einnig. Þegar súrefnið kemst í snertingu við jónaðar vetnisagnir frá sólvindi myndast vatn inni í kúlunum. Með tímanum grafast þær síðan undir ryki á yfirborði tunglsins.

Við rétt hitastig losnar vatn úr sumum þessara kúlna út í andrúmsloftið og á yfirborðið og eru þannig einhverskonar birgðastöð sem fyllist á með tímanum að sögn vísindamannanna.  Þetta gerir að verkum að kúlurnar geta orðið frábær uppspretta vatns, vetnis og súrefnis fyrir geimfara framtíðarinnar.