7 C
Grindavik
15. apríl, 2021

Uppgreiðslugjald ÍLS dæmt ólöglegt

Skyldulesning

Þúsundir lána sem tekin voru á árunum 2005-2013 voru með …

Þúsundir lána sem tekin voru á árunum 2005-2013 voru með uppgreiðsluákvæði.

mbl.is/Golli

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt uppgreiðslugjald lántakenda að lánum sem tekin voru hjá Íbúðalánasjóði á árunum 2005-2013 ólögleg. Þar með hafi ÍLS verið óheimilt að krefja lánþega um greiðslu uppgreiðslugjalda þegar þeir greiddu lán sín upp. Reikna má með að tug milljarða króna hagsmunir séu undir. 

„Ég lít svo á að dómurinn hafi ótvírætt fordæmisgildi. Dómurinn kveður skýrt á um það að þetta sé ólögmæt innheimta þóknana. Reglugerð ÍLS gengur lengra en lögin heimila,“ segir Þórir Skarphéðinsson lögmaður hjá Lögfræðistofu Reykjavíkur sem rak málið fyrir héraðsdómi. 

16 milljarða hagsmunir árið 2018

Heimild ÍLS til þess að taka þóknun í formi uppgreiðslugjalda byggir á lagaheimild sem fjallar um neyðarástand t.a.m. ef áhlaup væri á sjóðinn. Héraðsdómur kemst að þeirri niðurstöðu að sjóðnum hafi ekki verið heimilt að byggja gjaldtökuna á þessari lagaheimild.

Fram kemur í svari við fyrirspurn Ólafs Ísleifssonar, þingmanns Miðflokksins, á Alþingi árið 2018 að tæplega 6.400 lánþegar greiddu uppgreiðslugjaldið á árunum 2008-2018. Í heild tóku tæplega 13.900 lánþegar lán hjá ÍLS þar sem lántökugjalds var krafist. Úr þeim gögnum má lesa að hagsmunir tengdir lánum með uppgreiðsluákvæði séu 16 milljarðar króna árið 2018. Gera má ráð fyrir því að þessir hagsmunir séu hærri í krónum talið árið 2020.   

Skuldarar geti endurfjármagnað lán sín 

Að sögn Þóris felur dómurinn þrennt í sér að mati hans.

1. Að Íbúðalánasjóði var óheimilt að krefja skuldara um uppgreiðslugjald þegar þeir greiddu upp lán sín.


2. Að Íbúðalánasjóði var óheimilt að krefja skuldara um þóknun þegar þeir borguðu inn á lán hjá sjóðnum.

3. Að þeir skuldarar sem ekki hafa getað endurfjármagnað lán sem þeir tóku hjá Íbúðalánasjóði (með nýjum hagstæðari lánum frá öðrum lánveitendum) vegna kröfu um uppgreiðslugjald geta nú krafist þess að greiða þau lán upp án viðbótargjalds.

Þórir Skarphéðinsson.

Þórir Skarphéðinsson.

Þórir telur að þeir sem hafi greitt uppgreiðslugjald í það minnsta síðustu 10 ár falli undir dóminn þar sem fyrningafrestur er alla jafna 10 ár. Ekki sé útilokað að hægt sé að fara lengra aftur í tímann þar sem ekki sé tekið á einstaka efnisatriðum heldur sé uppgreiðslugjaldið dæmt ólöglegt í heild sinni. 

„Enn ríkir nokkur óvissa um viðbrögð ÍL-sjóða við dómnum, svo sem hvort honum verður áfrýjað til Landsréttar. Það er hins vegar afar brýnt að lánþegar sem geta átt rétt á endurgreiðslu ólögmætra gjalda, leiti réttar síns án tafar. Þess er þörf, meðal annars, til að koma í veg fyrir mögulega fyrningu krafna og til að tryggja rétt sinn til vaxta,“ segir Þórir.

Uppgreiðslugjaldið var 16% af upphæðinni 

Í umræddu dómsmáli var uppgreiðslugjald umbjóðanda Þóris 16% af uppgreiðsluverðmæti lánsins. Að sögn Þóris er notast við flókna reikniformúlu til þess að reikna uppgreiðslugjald lána og að lántakendur hafi ekki nokkur tök á því að átta sig á því hvað felst í útreikningum um uppgreiðslugjald.

„Staðreyndin er sú að nú eru t.d. lán hundruð einstaklinga á landsbyggðinni sem eru með þessu uppgreiðslugjaldi. Á mörgum stöðum hafa fasteignaeigendur ekki notið þeirra hækkana á húsnæðisverði sem hafa orðið t.a.m. á höfuðborgarsvæðinu. Fyrir vikið eru þeir í raun fastir með lán sín frá Íbúðalánasjóði og hafa ekki getað endurfjármagnað lán sín í takti við þau kjör sem nú bjóðast. Fastir með vaxtabyrði sem er ekki í neinum takti við það sem gerist á almennum markaði,“ segir Þórir.

Lánþegum hjá Íbúðalánasjóði bauðst á árunum 2005-2013 að taka annað hvort lán með eða án uppgreiðslugjalds. Þeir sem völdu þá leið að taka ekki lán með uppgreiðslugjaldi greiddu þess í stað hærri vexti af lánum sínum hjá sjóðnum.

Að sögn Þóris vekur dómurinn einnig spurningar um réttarstöðu þeirra sem tóku lán á hærri vöxtum án uppgreiðslugjalds. 

Innlendar Fréttir