7 C
Grindavik
23. apríl, 2021

Uppsögnin vó að „æru hans og persónu“

Skyldulesning

Maðurinn starfaði í 38 ár, eða næstum alla sína starfsævi, …

Maðurinn starfaði í 38 ár, eða næstum alla sína starfsævi, hjá Hafrannsóknastofnun en var sagt upp í fyrra. Verulegir ágallar eru sagðir hafa verið á undirbúningi uppsagnarinnar.

mbl/Arnþór Birkisson

Íslenska ríkið hefur verið dæmt til að greiða fyrrverandi starfsmanni Hafrannsóknastofnunar 3,5 milljónir í skaða- og miskabætur vegna ólögmætrar uppsagnar hjá stofnuninni eftir tæplega fjóra áratugi í starfi hjá stofnuninni. Er uppsögnin sögð haldin verulegum annmörkum og með henni sé vegið að æru og persónu starfsmannsins.

Starfsmaðurinn hóf störf hjá Hafrannsóknastofnun árið 1981 að loknu námi og vann þar sem fiskifræðingur í 38 ár, meðal annar sem sviðsstjóri.

Breytingar árið 2016 og minnkað starfshlutfall árið 2019

Við breytingar árið 2016 ákvað maðurinn að sækjast ekki eftir starfi stjórnanda hjá stofnuninni heldur vinna við fiski rannsóknir. Var hann þá 65 ára. Er rekið í dóminum hvernig nýr mannauðsstjóri hafi lagt að sviðsstjórum að halda árlegt starfsmannasamtal og að ræða við starfsmenn sem væru 65 ára eða eldir um hvort þeir gætu hugsað sér að minnka starfshlutfall sitt og nýta sér rétt til lífeyris á móti skertum tekjum.

Í byrjun árs 2019, þegar maðurinn var orðinn 68 ára, var rætt við hann um að minnka starfshlutfallið þar sem styttist í eftirlaunaaldur. Sló maðurinn til og fór í hálft starf og náði samkomulagið til ágúst 2021, þegar maðurinn var orðinn sjötugur og þar með kominn á eftirlaun.

Í mars mánuði 2019 kom inn nýr starfsmannastjóri og taldi hann að fækka þyrfti starfsmönnum vegna skertrar fjárframlaga. Ekki var einhugur í framkvæmdastjórn stofnunarinnar um uppsagnir, en úr varð að í nóvember í fyrra var manninum sagt upp ásamt fleiri starfsmönnum og fékk hann 12 mánaða fyrirvara, en var gert að yfirgefa starfsstöð samdægurs auk þess sem lokað var fyrir tölvuaðgang hans. Óskaði maðurinn rökstuðnings á uppsögninni frá forstjóra og fékk þá skýringu að vegna fjárlaga þyrfti stofnunin að fækka störfum.

Maðurinn mótmælti því að í uppsögninni fælist hagræði og vísaði til samkomulagsins fram yfir mitt ár 2021. Krafðist hann í kjölfarið fullra launa út það tímabil. Stofnunin hafnaði því og sagði samkomulagið hefði ekki meira gildi en ráðningasamningur og var öðrum kröfum mannsins hafnað.

Miðað við uppsagnarfrest í skertu starfshlutfalli

Maðurinn vísaði í kröfum sínum til laga um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna og sagði að þar sem uppsögnin væri ólögmæt ætti hann rétt á 12 mánaða uppsagnarfresti auk annarra 12 vegna niðurlagningar á starfi sínu. Sagði hann stofnunina ekki hafa sýnt fram á samhengi milli þess að starf hans hafi verið lagt niður og þeirrar röksemdar að hagræða hafi þurft í starfseminni. Vísaði hann sérstaklega til þess að stuttu áður hafði hann samkvæmt samkomulaginu minnkað starfshlutfall sitt um helming. Telur maðurinn jafnframt að forsendur þess samkomulag hafi brostið með uppsögninni og því eigi hann rétt á fullum launum út uppsagnar og biðlaunatímabilið.

Krafðist maðurinn rúmlega 14 milljóna á uppsagnarfresti og í bætur vegna niðurlagningar starfs, auk einnar milljónar í miskabætur.

Í vörn ríkisins í málinu er vísað til þess að forstöðumenn stofnana hafi rétt til að segja upp starfsmanni samkvæmt ráðningarsamningi. Þegar um hagræðingu sé að ræða þurfi forstöðumaður að geta sýnt fram á mat sem er til grundvallar niðurstöðu sinni. Í skriflegum rökstuðningi verði að gera grein fyrir því á hvaða atriðum þessi afstaða byggist að meginstefnu til. Í þessu máli liggi ekki fyrir skráð gögn og upplýsingar sem geti varpað ljósi á grundvöll þeirrar ákvörðunar að segja manninum upp starfi. Viðurkennir ríkið því að maðurinn eigi rétt á bótum. Ríkið mótmælir hins vegar miskabótakröfu mannsins.

Niðurstaða dómsins er að starf mannsins hafi ekki verið lagt niður. Hann eigi því ekki rétt á biðlaunum. Þá fellst dómstóllinn einnig á með ríkinu að aðeins sé horft til 49% starfshlutfalls í 12 mánuði, en ekki fulls starfs eins og maðurinn fór fram á. Segir dómurinn að samkomulagið hafi verið viðauki við ótímabundinn ráðningarsamning, en að ekki sé hægt að gera kröfu um það þegar fólk minnki við sig vinnu þegar það komi á lífeyrisaldur að verða ekki sagt upp fyrir sjötugt.

Skaðabætur upp á þrjár milljónir

Dómurinn telur manninn hins vegar eiga rétt á skaðabótum í málinu með vísan til þess að verulegir ágallar hafi verið á undirbúningi uppsagnarinnar. Er miðað við 380 þúsund krónur í átta mánuði, sem nemur því tímabili sem lifði eftir uppsagnarfrestinn að sjötugsafmæli mannsins, og eru manninum dæmdar þrjár milljónir.

Vegið að æru starfsmanns sem hafði sýnt áratuga hollustu

Að auki telur dómurinn rétt að dæma miskabætur. Kemur fram í dóminum að maðurinn hafi unnið nánast alla starfsævi sína hjá stofnuninni. Þar hafi hann verið í yfirstjórn, gegnt trúnaðarstöfum bæði hérlendis og erlendis og unnið að ýmsum framfaramálum. Dómurinn telur að uppsögn sem er haldin verulegum annmarka og er grundvölluð á röksemdinni „margt smátt gerir eitt stórt“ valdi starfsmanni, sem hefur sýnt vinnustað sínum sambærilega hollustu og stefnandi, ekki einvörðungu skaðabótaskyldu tjóni heldur sé með henni jafnframt vegið að æru hans og persónu.“

Í niðurstöðu dómsins er ákvörðun um bætur meðal annars rökstudd með eftirfarandi orðum: „Þegar menn hafa lagt alla sína faglegu hugsun, hugkvæmni og færni til framþróunar faglegra markmiða og lagalegu skyldna sömu stofnunarinnar nánast í fjóra áratugi eru starfið og vinnustaðurinn, eðli málsins samkvæmt, orðin hluti af sjálfsmynd manns. Taugar til vinnustaðarins og samstarfsfólksins hljóta að sama skapi að vera sterkar.“ Eru honum því aukalega dæmdar 500 þúsund í miskabætur, samtals 3,5 milljónir í skaða- og miskabætur ofan á 12 mánaða uppsagnarfrest í hálfu starfi.

Dóminn má í heild lesa hér.

spot_img
spot_img
spot_img

Innlendar Fréttir