1.3 C
Grindavik
29. janúar, 2023

Úrkomumet í höfuðborginni

Skyldulesning

Í gær hafði úrkoman mælst 209,0 millimetrar í mánuðinum.

Nú er ljóst að metúrkoma verður í marsmánuði í Reykjavík og reyndar víðar á landinu. Þetta upplýsir Trausti Jónsson veðurfræðingur. Í gær hafði úrkoman mælst 209,0 millimetrar í mánuðinum.

Næstmesta marsúrkoma sem vitað er um í Reykjavík mældist 183,2 millimetrar árið 1923, eða fyrir tæpri öld. Eitthvað bætist við til mánaðamóta, en væntanlega ekki mikið, telur Trausti.

Það er sjaldan sem mánaðarúrkoma er meiri en 200 millimetrar í Reykjavík, síðast í október 2016, en þá mældist hún 206,9 mm. Opinbera metið er 259,7 mm sem mældist í nóvember 1993. Í janúar 1842 mældust 291 mm, en mælingar voru með nokkuð öðrum hætti en nú – ekki víst að sambærilegt sé, segir Trausti.

Úrkoma var einnig meiri en 200 mm í febrúar 1921 (242,3 mm), janúar 1907 (218,6 mm) og nóvember 1958 (212,1 mm) – auk desember 1843 (246 mm) og desember 1847 (208 mm) – en nítjándualdartölurnar eru e.t.v. ekki sambærilegar hinum.

Úrkomumælingar hafa verið samfelldar í Reykjavík frá 1920, en mælingar eru einnig nokkuð áreiðanlegar á árunum 1884 til 1907. Sömuleiðis var mælt á árunum 1829 til 1854, en ekki á alveg sambærilegan hátt og nú er gert.

Á Akureyri hefur verið mælt samfellt frá 1928. Í Stykkishólmi nokkurn veginn samfellt frá 1856, en mjög ólíklegt er að marsmetið falli þar – þrátt fyrir að úrkoma hafi þar nú mælst 160,5 mm (mesta í mars frá 1974). Mest mældist þar í mars 1948, 226,8 mm.

Úrkoma á Akureyri hefur mælst 46,5 mm það sem af er mars og er það í rétt rúmu meðallagi. Marsmet falla aðallega um landið sunnanvert í ár. Skipting úrkomu er í regn, snjó og slyddu – en samanburður á þeim grundvelli er erfiður – slyddan á stóran hlut, segir Trausti.

Hiti í mars er ofan meðallags um nær allt land en rétt við meðallag á Vestfjörðum. Hlýjast að tiltölu hefur verið á Austfjörðum og Suðausturlandi.

spot_img
spot_img
spot_img

Innlendar Fréttir