Úrsögn Eflingar úr SGS sam­þykkt – Vísir

0
185

Úrsögn Eflingar úr Starfsgreinasambandi Íslands (SGS) var samþykkt í allsherjaratkvæðagreiðslu sem lauk í dag. Alls greiddu tæplega sjötíu prósent með úrsögninni en tæp tuttugu og átta prósent kusu gegn henni.

Efling mun því segja sig úr SGS og öðlast beina aðild að Alþýðusambandi Íslands (ASÍ) samkvæmt tilkynningu sem birt er á vef Eflingar í dag. Þar kemur fram að rétt rúm fimm prósent þeirra sem voru á kjörskrá greiddu atkvæði um úrsögnina.

Á kjörskrá voru 20.905 og af þeim greiddu 1.051 atkvæði. 733 greiddu atkvæði með eða 69,74 prósent, 292 greiddu gegn úrsögn eða um 27,78 prósent. Tuttugu og sex kusu svo að taka ekki afstöðu, eða um 2,47 prósent.

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, telur að um rétta ákvörðun sé að ræða. „Ég er auðvitað bara mjög ánægð og fagna því að félagsfólk sé sammála afstöðu forystu félagsins um að hagsmunum Eflingar sé betur borgið utan SGS,“ segir hún í samtali við fréttastofu.

„Ég reikna með því að strax á morgun verði sent erindi frá Eflingu, fyrst til SGS til að tilkynna um úrsögn og svo til ASÍ til þess að fá þá staðfestingu á því að okkar beina aðild sé til staðar.

Greiði háar fjárhæðir þrátt fyrir að sækja ekki þjónustu Á félagsfundi Eflingar sem fram fór þann 24. apríl síðastliðinn var það einróma niðurstaða að boða til allsherjar atkvæðagreiðslu meðal félagsfólks um úrsögn félagsins úr SGS. Sólveig Anna sagði þá í samtali við fréttastofu að um væri að ræða rétt og eðlilegt skref til að taka á þessum tímapunkti.

Hún sagði ástæðuna fyrir úrsögninni vera einfalda, félagið greiði gríðarlega háar fjárhæðir í formi skatts til SGS. Að sögn Sólveigar greiddi félagið til að mynda ríflega 53 milljónir króna til SGS í fyrra. „En við sækjum enga þjónustu til SGS,“ segir hún.

„Það er afstaða forystu félagsins að þessir fjármunir nýtist einfaldlega betur í þjónustu við félagsfólk. Jafnframt teljum við að rétt og eðlilegt að Efling sé með sjálfstæða aðild að Alþýðusambandinu en ekki með aðild í gegnum SGS eins og verið hefur.“

Tengdar fréttir Munu boða til at­kvæða­greiðslu um úr­sögn úr SGS Það var einróma niðurstaða á félagsfundi Eflingar að boða til allsherjar atkvæðagreiðslu meðal félagsfólks um úrsögn Eflingar úr Starfsgreinasambandinu (SGS). Formaður Eflingar segir fjármunum félagsins betur varið en í greiðslur til SGS.

24. apríl 2023 20:40

Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Mest lesið
Fleiri fréttir Sjá meira