Utanríkisráðherra Þýskalands varar við „hryllingi“ í Taívansundi – DV

0
123

Annalena Baerbock, utanríkisráðherra Þýskalands, segir að átök á milli Kínverja og Taívan í Taívansundi verði „hryllingur“. Með þessum orðum tók hún aðra afstöðu en Emmanuel Macron, forseti Frakklands, sem sagði nýlega að Evrópa verði að forðast að dragast inn í deilur sem Bandaríkin standa í. Baerbock var nýlega í heimsókn í Kína og ræddi meðal annars við Qin Gang, utanríkisráðherra. Eftir fund þeirra sagði hún að átök á milli Kína og Taívan myndu verða mikið áfall fyrir heiminn.

„Röskun á jafnvægi myndi hafa afleiðingar fyrir alla heimsbyggðina, efnahag heimsins og þar með Þýskaland,“ sagði hún að sögn The Guardian. „Við fylgjumst áhyggjufull með vaxandi spennu í Taívansundi,“ sagði hún.

Kínverski utanríkisráðherrann sakaði erlendar ríkisstjórnir um að styðja aðskilnaðarsinna á Taívan en kínversk stjórnvöld líta á eyjuna sem kínverskt hérað. Hann sagði að ef ríki vilji virða „eitt Kína“ stefnuna þá sé rétta leiðin að taka harða afstöðu gegn sjálfstæði Taívan.