Útför fórnarlambs morðs endaði með morði – DV

0
89

Einn lést og þrír særðust þegar skotið var á fólk sem var viðstatt útför í útfararstofu í Washington D.C. þann 11. apríl síðastliðinn. Skotið var á fólkið þegar það kom út úr útfararstofunni en þar fór útför manns, sem var myrtur, fram. People segir að lögreglan hafi verið kvödd á vettvang klukkan 12.15. Á vettvangi hafi lögreglumenn fundið tvo karla og tvær konur sem höfðu verið skotin. Annar karlmaðurinn, hinn 29 ára Terrell Coghill, var úrskurðaður látinn á vettvangi. Hin þrjú voru flutt á sjúkrahús og voru öll sögð vera með lífshættulega áverka.

Skotið var úr bifreið, líklega hvítri Lexus IS350, sem var ekið fram hjá útfararstofunni. Þetta sést á upptökum eftirlitsmyndavéla.

Útför Stephon Lamont Carroll, 24 ára, var nýlokið þegar þetta gerðist. Hann var skotinn til bana í Washington D.C. þann 24. mars.

Enginn hefur verið handtekinn vegna morðsins á Carroll og það sama á við um morðið á Coghill.