2.3 C
Grindavik
27. nóvember, 2021

Útgöngubann – Sóttvarnarlög á Íslandi og hryðjuverkalög í Bretlandi

Skyldulesning

Það mun nú hafa verið dreift lagafrumvarpi á Alþingi sem felur m.a. í sér að útgöngubann verði eitt að því sem yfirvöld hérna geta gripið til sem sóttvarnarráðstöfun. Það er eiginlega ómögulegt að sjá fyrir sér aðstæður á Íslandi þar sem útgöngubann skiptir máli. Hér er ekki mikið þéttbýli og veðuraðstæður gera það að verkum að fáir eru á ferli á almannafæri stærstan hluta ársins. 

Yfirvöld hérna hafa gripið  til ýmissa ráða, m.a. að fyrirskipa lokuð ýmissa stofnana og takmarkað ferðir fólks t.d. til að koma í veg fyrir að smit dreifðist.

En útgöngubann er gríðarlega mikil frelsisskerðing og af allt öðrum toga en tálmanir á því hvert þú mátt fara og hvaða þjónustu þú mátt kaupa. Það er engin ástæða til að setja hér útgöngubann og það verður ekki litið á það öðruvísi en sem þróun í átt að lögregluríki þar sem einhverjir geta vaktað allar ferðir þínar ef svo stendur á.

Einhverjir munu halda því fram að það sé svona í nágrannalöndum í Evrópu og það sé ekki meiningin að beita þessum lögum nema „brýna nauðsyn beri til“ og það sé sótthætta.  Þessum rökum vil ég svara þannig að það er ekki sjálfkrafa gott og rétt ef það er gert í löndum umhverfis eða það sé alsiða einhvers staðar annars staðar. Það gerði ekki hræðilegan kasínókapítalisma fjárglæframanna og aflandseyjaliðs hér á árunum fyrir Hrun neitt betri að segja að þetta sé alsiða í viðskiptalífi hins vestræna heims. Það er heldur ekki röksemd fyrir að hafa vopnaðan her hér á landi að það sé her í nágrannalöndunum.

Hin röksemdin að útgöngubann verði aðeins beitt í sóttvarnartilgangi er jafn bernsk og fólk í Bretlandi hefði haldið fram að þegar þingið þar setti lög gegn hryðjuverkamönnum, lög sem áttu að sporna gegn því að hryðjuverkamenn gætu fjármagnað iðju sína þá yrði þeim lögum aðeins beint gegn hryðjuverkamönnum og hryðjuverkasamtökum.

Bresk yfirvöld beittu þessum hryðjuverkalögum sínum gegn Íslendingum árið 2008, gegn friðsamri smáþjóð og vinaþjóð.

Það ættu allir að muna að bresk stjórnvöld gripu til laga sem ætluð voru til að sporna við hryðjuverkjum þegar þau frystu eigur íslenskra banka í Bretlandi og það fór á stað þar í landi stjórnmálalegur spuni sem olli ýmis konar ofsóknum á Íslendinga sem og að lama algjörlega smáþjóð með ofvaxið fjármálakerfi sem hafði hrunið. Í mínum huga er þessi gjörð breskra stjórnvalda það hræðilegasta sem gerist á tímum Hrunsins og þessi gjörð breytti afstöðu minni til laga og stjórnmála um aldur og ævi. Líka afstöðu minni til stórveldis og nýlenduveldis í fjörbrotum, eina landinu sem hefur nokkurn tíma farið með ófrið á hendur Íslendingum, sendi fyrst hingað sápukaupmann í mislukkaða innrás, réðst svo inn í landið á stríðárunum og  var svo með margra ára ófrið til að tryggja fiskiskipum sínum áframhaldandi rányrkju við Íslandsstrendur og svo þessi hryðjuverkaaðgerð árið 2008 til að reyna að hilma yfir að þeirra fjármálakerfi var að falla og frjálshyggjumöndrur Thatcherismans virkuðu ekki og blekktu ekki lengur.

Rúv rifjaði 9.10.2013 að þá voru liðin fimm ár frá beitingu Hryðjuverkalaganna:

Fimm ár eru í dag frá því Gordon Brown, þáverandi forsætisráðherra Bretlands, gagnrýndi íslensk stjórnvöld harðlega í sjónvarpsviðtali. Daginn áður voru hryðjuverkalög notuð til að frysta eignir íslenskra banka í Bretlandi. Breskur hagfræðingur segir að frekar hefði átt að hjálpa vinaþjóð.

Brown sagði í viðtali við Sky News að lagabeitingin væri réttmæt. Gæta yrði hagsmuna innstæðueigenda í Bretlandi þegar fé væri að hverfa úr íslensku bönkunum. „Ég tel þeim bera skylda til að standa við skuldbindingar gagnvart breskum þegnum sem hafa fjárfest í íslenskum bönkum,“ sagði Brown. 

Breski hagfræðingurinn Eamon Butler er framkvæmdastjóri Adam Smith hugveitunnar. Hann segir að Bretar hefðu átt að hjálpa vinaþjóð en ekki ráðast á hana. „Ríkisstjórn Browns horfði á banka hrynja allt umhverfis og stjórn hans þurfti að koma bönkum og öðrum fyrirtækjum til bjargar. Þeir höfðu ekki hugmynd um til hvaða ráðas skyldi gripið. Svo viðbrögðin urðu svona. Þeir voru sem smádýr fangað í ljósum hraðskreiðrar bifreiðar,“ segir Butler. 

Butler átti sjálfur fé á Icesave reikningi. „Ég þurfti að standa skil á sköttum eftir hálft ár svo ég skoðaði innlánsvexti og Icesave bauð betur. Ég hugsaði sem svo að þetta væri lyginni líkast og hringdi í íslenskan vin minn og spurði hvort þessi banki væri í lagi. Hann sagði svo vera; að frændi hans stjórnaði honum en ég taldi ólíklegt að hann færi á hausinn á næstu sex mánuðum svo ég lagði féð mitt inn og veðjaði þar með á hann.“

FImm og hálfum mánuði síðar fór bankinn á hausinn og Butler taldi féð glatað. „En Alistair Darling fjármálaráðherra skrifaði ávísun fyrir allri upphæðinni auk fullrar ávöxtunar sem ég hefði fengið hefði bankinn ekki farið á hausinn. Og það eru breskir skattgreiðendur sem borga. Af hverju skyldi byggingaverkamaður í Bradford borga hærri skatta til að bjarga náunga eins og mér sem meðvitað veðjaði á að þessi banki starfaði áfram?“


spot_img
spot_img
spot_img

Innlendar Fréttir