-1 C
Grindavik
30. nóvember, 2020

Utís hópurinn hlaut hvatningar­verð­laun Ís­lensku mennta­verð­launanna

Skyldulesning

Ingvi Hrannar Ómarsson, kennari og frumkvöðull, og Utís hópurinn hlutu í gær hvatningarverðlaun Íslensku menntaverðlaunanna. Utís hópurinn er lærdómsfélag brautryðjenda í kennsluháttum en hvatningarverðlaunin hljóta Ingvi Hrannar og Utís „fyrir framúrskarandi stuðning við starfsþróun íslenskra kennara með miðlun framsækinna hugmynda um skapandi skólastarf, nýsköpun og upplýsingatækni þar sem nemandinn er í brennidepli,“ líkt og segir í tilkynningu á vef stjórnarráðsins.

Tilkynnt var um verðlaunahafa Íslensku menntaverðlaunanna í gær en þeim er ætlað að auka veg menntaumbótastarfs og vekja athygli á metnaðarfullu og vönduðu skóla- og frístundastarfi með börnum og unglingum.

Þvílík viðurkenning fyrir Utís samfélagið að fá Hvatningarverðlaun Íslensku Menntaverðlaunanna árið 2020 Utís er og hefur verið magnaðasta verkefni sem ég hef tekið þátt í og er heiður að vera í forsvari fyrir þennan ótrúlega hóp.#menntaspjall pic.twitter.com/q2iZdkuyYZ

— Ingvi Hrannar (@IngviHrannar) November 13, 2020

Ingvi Hrannar fagnar verðlaununum á Twitter í gærkvöldi. „Útís er og hefur verið magnaðasta verkefni sem ég hef tekið þátt í og er hægður að vera í forsvari fyrir þennan ótrúlega hóp,“ skrifar Ingvi en Vísir hefur áður sagt fréttir af þessum brautryðjenda í kennslumálum.

Íslensku menntaverðlaunin eru veitt í þremur aðalflokkum auk hvatningarverðlaunanna.

Dalskóli í Úlfarsárdal í Reykjavík hlaut verðlaun í flokki framúrskarandi skólastarfs eða menntaumbóta fyrir þróun þverfaglegra skapandi kennsluhátta, meðal annars í svokölluðum smiðjum og starfsþróunarverkefni þar sem kennarar rannsaka eigið starf.

Þá hlaut Birte Harksen kennari við Heilsuleikskólann Urðarhól í Kópavogi, verðlaun sem framúrskarandi kennari. Verðlaunin hlýtur hún fyrir framúrskarandi kennslu og frumkvæði við að efla skapandi og leikmiðaða starfshætti í leikskólanum með vefsvæðunum Börn og tónlist, Leik að bókum og Stafagaldri.

Loks hlaut þróunarverkefnið Smiðjur í Langholtsskóla í Reykjavík verðlaun í flokki framúrskarandi þróunarverkefna. Verkefnið hefur það að markmiði að auka veg þverfaglegra viðfangsefna með áherslu á sköpun, lykilhæfni og nýtingu upplýsingatækni í námi.

Innlendar Fréttir