Útskrifaður af gjörgæslu eftir skipsbrunann í Njarðvíkurhöfn – Vísir

0
105

Útskrifaður af gjörgæslu eftir skipsbrunann í Njarðvíkurhöfn Skipverji sem slasaðist þegar Grímsnes GK-555 brann í Njarðvíkurhöfn fyrir viku er útskrifaður af sjúkrahúsi. Rannsókn lögreglu á brunanum mannskæða er sögð miða vel áfram en ekki er talið að upptök eldsins hafi borið að með saknæmum hætti.

Pólskur skipskokkur á fimmtugsaldri fórst þegar eldur kom upp í skipinu sem lá við festar í Njarðvíkurhöfn aðfararnótt 25. apríl. Sjö voru um borð í skipinu þegar eldurinn kviknaði og lá einn þungt haldinn í gjörgæsludeild um tíma. Hann er nú laus af sjúkrahúsi.

Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóri á Suðurnesjum, gerir ráð fyrir að rannsókninni ljúki fljótlega.

„Rannsókninni miðar vel og er á lokametrunum. Ég held að niðurstaða komi í málið fljótlega,“ segir Úlfar í samtali við Vísi.

Lögreglan hefur þegar greint frá því að hún telji ekki að nokkuð saknæmt hafi átt sér stað. Tæknideild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu hefur aðstoðað við rannsóknina.