Vænn afli hjá togurum Síldarvinnslunnar

0
160

Þegar búið er að vinna aflan úr Gullver NS verður páskafrí hjá starfsfólkinu í frystihúsinu á Seyðisfirði. Ljósmynd/Síldarvinnslan: Ómar Bogason

Togarar Síldarvinnslunnar hafa landað ágætum afla að undanförnu. Bergur VE landaði fullfermi í Vestmannaeyjum á sunnudag og í gær landaði svo Vestmannaey fullfermi.

„Það var hörkufiskirí. Stutt dregið og góður fiskur eins og alltaf á þessum árstíma. Aflinn er mest ýsa og þorskur og hann fékkst á Landsuðurhrauni og Holtshrauni. Nú erum við komnir í páskafrí. Það er alltaf gott að pústa dálítið,“ segir Jón Valgeirsson, skipstjóri á Bergi, í færslu á vef Síldarvinnslunnar.

Egill Guðni Guðnason, skipstjóri á Vestmannaey, kveðst þar sammála Jóni. „Það gekk vel að veiða. Aflinn var mest þorskur og ýsa þrátt fyrir að sífellt væri verið að reyna að finna ufsa. Ufsinn er heilmikið vandamál, það vantar hann inn í veiðina og það er áhyggjuefni. Nú er komið um það bil viku stopp og það er ósköp notalegt.“

Áhöfnin á Bergi VE er komin í páskafrí. Ljósmynd/Síldarvinnslan: Ragnar Waage Pálmason

Gullver landaði á Seyðisfirði Þá kom Gullver NS til hafnar á Seyðisfirði með um 50 tonn í gær til vinnslu í frystihúsinu. Skipið hélt til veiða á sunnudag og var því aðeins á veiðum í um sólarhring. Aflinn var mest þorskur og ýsa og fékkst hann frá Fætinum og vestur á Hvalbakshall.

„Við munum nú klára þann afla sem Gullver kom með í gær og ég reikna með að það verði búið annað kvöld. Síðan hefst páskafrí hjá okkur. Gert er ráð fyrir að vinnsla hefjist á ný á þriðjudag eftir páska og þá verður kominn góður skammtur frá Gullver,“ segir Ómar Bogason, rekstrarstjóri frystihússins á Seyðisfirði.

Gullver hélt á ný til veiða fljótlega að löndun lokinni og er gert ráð fyrir að hann landi á ný á laugardag. Gert er ráð fyrir að bæði Bergur og Vestmannaey haldi á ný til veiða um miðnætti á páskadag.