Var að kasta af sér þvagi og átti sér einskis ills von þegar belja kom fljúgandi – DV

0
100

Pressan er kannski nokkrum vikum og sein með þessa frétt, en með furðufréttir gildir að betra sé seint en aldrei. Eða sá er skilningur blaðamanns.

Sá harmleikur átti sér stað í Indlandi í apríl að maður sem var að kasta af sér þvagi á lestarteina, og átti sér einskis ills von, lét lífið í hálf ótrúlegri atburðarás.

Maðurinn hét Shivdayal Sharma og samkvæmt ættingjum hans bar andlát hans að með þeim hætti að kýr gekk í veg fyrir lest. Höggið var svo mikið að kýrin ekki bara lést heldur tókst á loft, flaug um 30 metra og lenti ofan á Shivdayal sem lét lífið samstundis.

Ekki mun vera fátítt að hraðlestirnar sem fara þessa leið hafni á skepnum. En ráðherra lestarmála Ashwini Waishnav hefur þó sagt að óhjákvæmilegt sé að koma í veg fyrir þetta. Þessi möguleiki hafi verið hafður í huga þegar lestirnar voru hannaðar, en þær fara á um 130-160 km hraða.

Nú hefur þó verið ákveðið að setja járngrindverk með fram leiðinni sem liggur frá Mumbai til Ahmedabad, en leiðin er 620 km að lengd. Þetta ætti vonandi að koma í veg fyrir slys á dýrum, og mönnum.