Knattspyrnumaðurinn fyrrverandi og sparkspekingurinn Gabriel Agbonlahor hefur dregið ummæli sín um fagnaðarlæti leikmanna og stuðningsmanna Arsenal eftir 1:0-sigurinn gegn Aston Villa á Villa Park í Birmingham um helgina til baka.
Agbonlahor, sem starfar sem sparkspekingur hjá talkSport í dag gagnrýndi leikmenn liðsins eftir sigurinn og sagði þá hafa fagnað eins og þeir hefðu verið að vinna Meistaradeildina.
Arsenal fór með sigrinum upp í fjórða sæti deildarinnar í 54 stig og hefur liðið nú þriggja stiga forskot á Tottenham sem er í fimmta sætinu með 51 stig.
„Ég vil nota tækifærið og biðja stuðningsmenn og leikmenn Arsenal afsökunar á ummælum mínum,“ sagði Agbonlahor í samtali við talkSport.
„Ég var afbrýðisamur eftir sigur Arsenal og fagnaðarlætin áttu svo sannarlega rétt á sér. Ég er sannfærður um að Arsenal muni enda í einu af efstu fjórum sætunum,“ bætti framherjinn fyrrverandi við.