Vélstjóri í háskaleik…

Það er óhætt að segja að Pálmi vélstjóri hafi sloppið með skrekkinn um daginn er hann hugði sér gott til glóðarinnar og ná sér í kinnar af stórlúðuhausum.

Í miklum hildarleik er 80 kg stórlúða spratt sprelllifandi úr móttökunni, var Pálmi einungis vopnaður trégoggi og réðst til atlögu við lúðuna. Hann passaði sig á því samt sem áður að nota ekki gogginn til að gogga í lúðuna því honum var annt um kinnarnar og því var á brattann að sækja fyrir hann.

Sjónarvottar er til sáu fullyrtu að Pálmi hefði stokkið á bak lúðunni, haldið sér fast í tálknin, læst        klossunum  um sporðinn og lamið af öllum lífs og sálarkröftum í hausinn en samt varfærnislega til að skemma ekki kinnarnar. Barst hildarleikurinn um víðan völl, en loks dró af lúðunni  við áköf högg Pálma með trégoggnum sem var orðinn meyr af bleytu og endaði með því að lúðan gafst upp og játaði sig sigraða. Pálmi slapp nokkuð vel frá þessum leik, hruflaður á hnjám en að öðru leyti óskaddaður á sál og líkama. Við vonum hins vegar að kinnarnar smakkist vel!

þetta var árið 2003…