Var með lista yfir nem­endur sem hann vildi skjóta – Vísir

0
55

Var með lista yfir nem­endur sem hann vildi skjóta Fjórtán ára gamall drengur, sem skaut níu til bana í grunnskóla í miðborg Belgrad í Serbíu í morgun, skipulagði árásina í heilan mánuð að sögn lögreglu. Þá var drengurinn með lista af nemendum sem hann vildi beina spjótum sínum að og búinn að ákveða hvaða skólastofum hann myndi byrja á.

Frá þessu hefur lögreglan í Belgrad greint. Drengurinn skaut kennara sinn, samnemendur og öryggiverði í Vladislav Ribnikar grunnskólanum í morgun. Af þeim létust níu, átta nemendur og öryggisvörður. Kennari og sex börn voru flutt á sjúkrahús. Drengurinn var handtekinn á vettvangi.

Samkvæmt nýjum upplýsingum frá lögreglunni hafði drengurinn teiknað yfirborðsmynd af skólanum, hvar mætti finna inn- og útganga og hvert hann ætlaði að halda fyrst. Teikningin fannst í skrifborði drengsins. Þá er grunur um að hann hafi verið búinn að útbúa fjóra Molotov-kokteila. Menntamálaráðherra landsins hefur sagt að drengurinn hafi verið lagður í einelti af jafnöldrum sínum. 

Af börnunum sem létust voru sjö stúlkur og einn drengur. Sá yngsti var fæddur árið 2009. Fjórir drengir og tvær stúlkur særðust þá í árásinni.

Ein stúlknanna er í lífshættu en hún hlaut alvarlegan höfuðáverka samkvæmt upplýsingum BBC. Þá liggur einn drengjanna þungt haldinn.  Hann var skotinn í hálsinn og brjóstið og hlaut hann mænuáverka. Þá var hinn drengurinn skotinn í fótinn og ein stúlknanna skotin í magann og báða handleggi. Kennarinn var skotinn í magann og báða handleggi.

Hald hefur verið lagt á tvær skammbyssur sem drengurinn beitti í árásinni og talið að hann hafi tekið skotvopnin af heimili föður síns. Faðirinn hefur einnig verið handtekinn.

Þriggja daga þjóðarsorg hefur verið lýst yfir í Serbíu, frá 5. til 7. maí.