Var skotinn í magann er hann reyndi að hrekkja ókunnugan mann – Ætlaði að birta myndband af hrekknum á YouTube – DV

0
157

Margir leita sér að frægð á samfélagsmiðlum og hafa ýmsir gripið á það ráð að hrekkja saklausa borgara, taka verknaðinn upp, og birta svo. myndbönd af athæfinu, enda njóta slík myndbönd mikilla vinsælda. Það er þó betra að hafa varann á.

Tanner Cook, 21 árs maður sem gerir myndbönd sem hann birtir á YouTube, þurfti nýleg að berjast fyrir lífi sínnu eftir að hann ákvað að hrekkja ókunnugan mann í verslunarmiðstöð í Virginíu.

Tanner var að taka upp myndband þegar hann lenti í átökum við hinn 31 árs Alan Colie.Ekki er ljóst í hverju hrekkurinn fólst en Tanner hefur áður birt myndbönd þar sem hann til dæmis þykist kasta upp yfir bílstjóra hjá Uber og eins hefur hann boðið ókunnugum að spila við sig leikinn Twister í engum fötum.

Átökin enduðu með því að Tanner var skotinn í magann og hefur hann varið undanförnum dögum á gjörgæslu.

Alan Coile hefur nú verið ákærður fyrir að hafa valdið líkamsmeiðingum af ásetningi með skotvopni og eins að hafa notað skotvopn við framkvæmd glæps sem og fyrir að hafa skotið af vopni innandyra.

Tanner hefur rætt við fjölmiðilinn WUSA9 eftir að hann undirgekkst aðgerð. Hann sagðist hafa verið að hrekkja Coile og tekið það upp.

„Ég var að gera hrekk, og þetta var bara einfalt grín og þessi gaur tók því ekkert sérstaklega vel,“ sagði Tanner en bætti því við að atvikið muni ekki komi í veg fyrir að hann haldi áfram að framleiða efni.

Vinur Tanner varð vitni að atvikinu, enda var hann að taka hrekkinn upp, myndbandið er nú sönnunargagn í málinu.

Faðir Tanners, Jeramy Cook, segir að atvikið sé sláandi og viðbrögð Coile hafi verið úr öllu hófi.

„Þeir voru að gera myndband í verslunarmiðstöðinni og að reyna að skemmta fólki og þessi maður var ekki að skemmta sér.“

Þó nokkur vitni voru að atvikinu og varð fólk verulega slegið og á erfitt með að hugsa sér að snúa aftur í verslunarmiðstöðina.

Þó hafa einhverjir á samfélagsmiðlum tekið til varna fyrir skotmanninn og segja að það sé komið alveg nóg af því að saklaust fólk sé áreitt af aðilum sem séu að framleiða skemmtiefni til að græða á því.