„Þessar niðurstöður segja okkur að virknin er töluvert mikil og þá er næsta skref að prófa virknina á fólki og það er að fara í gang núna,“ segir Katrín Pétursdóttir, framkvæmdastjóri Lýsis hf., um þróun vöru fyrirtækisins sem talin er geta hamlað veirusmiti.
Segir Katrín að varan hafi verið send í rannsóknir til Bandaríkjanna þar sem henni var beitt á frumuræktun. Niðurstöðurnar hafi sýnt fram á það að vöru Lýsis hf., sem innihélt annars vegar eitt prósent og hins vegar tvö prósent af fríum fitusýrum, tókst að vinna á 99,99% af kórónuveirunni, SARS COV-2.
Í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag segir Katrín að búið sé að samþykkja að rannsóknin fari í ferli hér heima og vænta megi niðurstaðna fljótlega á nýju ári.