Varar við – Helmingur mannkyns í hættu – DV

0
123

Rúmlega helmingur mannkyns á á hættu að lenda í flokkum sem þykja lítt eftirsóknarverðir fyrir árið 2035. Þetta eru flokkarnir feitur og allt of feitur. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu frá samtökunum World Obesity Federation. Fram kemur að um 4 milljarðar jarðarbúa muni lenda í þessum flokkum.

Mesta aukningin verður hjá börnum en reiknað er með að 208 milljónir drengja muni lenda í þessum flokkum en það er 100% aukning frá því sem nú er. Reiknað er með að 175 milljónir stúlkna lendi í þessum flokkum og er það 125% aukning.

Louise Baur, formaður World Obesity Federation, hefur miklar áhyggjur af þessari þróun. Hún segir að skýrslan sé góð áminning um þær hættulegu afleiðingar sem það hefur að takast ekki á við offituvandann í dag. Hún sagði það sérstakt áhyggjuefni hversu hratt offitutilfellum muni fjölga meðal barna.

Reiknað er með að aukningin verði mest í lág- eða millitekjulöndum í Afríku og Asíu.