6 C
Grindavik
21. apríl, 2021

Varðskip Gæslunnar bæði tekin í slipp í ár

Skyldulesning

Varðskipið Týr hefur verið í Slippnum í Reykjavík að undanförnu. Unnið er að viðgerðum og viðhaldi. Skipið er áberandi í umhverfinu við gömlu höfnina, eins og sjá má.

Árni Sæberg

Bæði íslensku varðskipin, sem nú eru í þjónustu Landhelgisgæslunnar, verða tekin í slipp á þessu ári til viðgerða og viðhalds.

Vegna óvæntrar bilunar í skrúfubúnaði varðskipsins Týs var það tekið í Slippinn í Reykjavík fyrr í þessum mánuði. Bilunin var ófyrirséð og því liggur endanleg kostnaðaráætlun ekki fyrir, samkvæmt upplýsingum Ásgeirs Erlendssonar, upplýsingafulltrúa Landhelgisgæslunnar.

Ákveðið var að flýta skylduviðhaldi á Tý í leiðinni en það átti að fara fram á næsta ári. Sömuleiðis var ákveðið að ráðast í viðgerðir á bilunum sem komu í ljós við skoðunina.

Varðskipið Týr var smíðað í Árósum árið 1975 og ber aldurinn nokkuð vel, að því er fram kemur í frétt á heimasíðu Gæslunnar. Miklar skemmdir urðu á skrokk skipsins þegar breska freigátan Falmouth sigldi á það í maí árið 1976. Viðgerð fór fram erlendis þegar þorskastríðinu lauk. Síðan þá hafa verið gerðar miklar breytingar og endurbætur á Tý í Póllandi, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.

spot_img
spot_img
spot_img

Innlendar Fréttir