-2 C
Grindavik
24. janúar, 2021

Vardy tryggði sigurinn undir lokin

Skyldulesning

Jamie Vardy skorar sigurmarkið.

Jamie Vardy skorar sigurmarkið.

AFP

Leicester City vann góðan 2:1 sigur gegn Sheffield United í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í dag. Allt virtist stefna í jafntefli þegar Jamie Vardy, framherji Leicester, skoraði sigurmarkið undir lok leiksins.

Leicester náði forystunni á 24. mínútu leiksins. James Justin gaf þá fyrir og skallaði John Egan í vörn Sheffield United boltann frá. Boltinn fór þó ekki lengra en til Marc Albrighton hjá Leicester, sem skaut að marki en varnarmaður komst í veg fyrir skotið. Boltinn barst þaðan til Ayoze Pérez sem skaut að marki af markteig og skoraði.

Aðeins tveimur mínútum síðar jafnaði Sheffield. Þá tók John Lundstram hornspyrnu og fann þar Oli McBurnie, sem skallaði boltann laglega í netið.

Undir lok fyrri hálfleiks komst James Maddison nálægt því að koma Leicester yfir að nýju en skot hans fór í stöngina.

Maddison átti eftir að koma frekar við sögu í leiknum. Þegar Sheffield virtist vera að ná í aðeins sitt annað stig á tímabilinu sá Maddison glufu á vörn Sheffield. Hann sendi boltann inn fyrir þar sem Vardy  var á harðaspretti. Hann þakkaði kærlega fyrir sig og kom Leicester í 2:1 á 90. mínútu leiksins með laglegri afgreiðslu.

Leicester heldur sér því í toppbaráttunni og er komið, að minnsta kosti um sinn, í 3. sæti deildarinnar.

Hjá Sheffield gengur hvorki né rekur og situr liðið sem fastast á botni deildarinnar með aðeins eitt stig eftir 11 leiki. Er það versta byrjun liðs í sögu ensku úrvalsdeildarinnar.

Innlendar Fréttir